Grásleppa

Grásleppa

Grásleppuvertíð 2019 - sótt er um í Ugga - skrá þarf upplýsingar um afla og verðmæti á vertíðinni 2018

grasleppa_um_bord.bmp

Veiðar á grásleppu eru bannaðar nema með sérstökum veiðileyfum sem gefin eru út af Fiskistofu. Eingöngu er heimilt að veita slík veiðileyfi þeim bátum sem áttu rétt til grásleppuveiða á vertíðinni 1997, og bátum sem komið hafa í þeirra stað.

Veiðileyfi til grásleppu eru gefin út í ákveðinn dagafjölda á hverri vertíð. Ráðherra sjávarútvegsmála ákveður hann hverju sinni. Hvert leyfi er bundið við ákveðið veiðisvæði og þarf að tilgreina í umsókn hvenær lagning neta hefst og telja dagarnir frá þeim degi. Eingöngu er hægt að fá eitt grásleppuleyfi á hvern bát á hverri vertíð. Upplýsingar um veiðisvæði má sjá hér.

Fiskistofa vekur athygli á  reglum um fjölda og lengd neta við grásleppuveiðar:

Að hámarki er hverjum bát heimilt að hafa samanlagða teinalengd neta til hrognkelsaveiða allt að 7.500 metra á vertíð. Netalengd miðast við teinalengd (efri tein/flottein nets). Hverjum bát er einungis heimilt að nota net sömu teinalengdar á hverri grásleppuvertíð.

Vitjun grásleppuneta:

Grásleppunet skulu dregin eigi síðar en 4 sólarhringum eftir að þau eru lögð í sjó. Frá þessu má aðeins víkja ef veður hamlar sjósókn með þeim hætti að ekki reynist unnt að vitja neta enda hafi skipstjóri sent Fiskistofu tilkynningu þar að lútandi á netfangið grasleppa@fiskistofa.is.

Týni skip hrognkelsanetum í sjó, ber skipstjóra að slæða þau upp. Takist það ekki skal hann tilkynna það Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu og skýra frá staðsetningu netanna eins nákvæmlega og unnt er.

Eingöngu er heimilt að nota við hrognkelsaveiðar þann bát, sem tilgreindur er í veiðileyfi. Um hrognkelsaveiðar krókabáta vísast til reglna um veiðar krókaafla-marksbáta. Óheimilt er að stunda hrognkelsaveiðar og aðrar veiðar með öðrum veiðarfærum í sömu veiðiferð og er óheimilt að hafa net til hrognkelsaveiða um borð í báti nema á þeim tíma sem hrognkelsaveiðar eru stundaðar.

Löndun og skráning grásleppuafla:

Við hrognkelsaveiðar skal koma með öll hrognkelsi að landi. Hrognkelsaafla er skylt að landa og vigta á hafnarvog og niðurstöður vigtunar skráðar í aflaskráningarkerfið GAFL. Sé grásleppa skorin fyrir löndun og hrognum landað sér er heildarþyngd vigtuð, en við skráninguna dregst þungi íláta frá auk 20% „sulls” sem reiknað er af hrognunum.

  • Vigta skal og skrá í GAFL allan rauðmaga sem kemur að landi.
  • Skylt er að hirða og koma með að landi öll þorsk- og ufsahrogn.
  • Skylt er að koma með að landi alla þorsklifur, sem og alla ufsa-, löngu-, keilu- og skötuselslifur.
  • Mikilvægt er að öll sjávarspendýr og fuglar sem koma í grásleppunet séu skráð í afladagbók.

Skil á skýrslum um aflann og ráðstöfun hans:

Útgerðir eiga að  senda Fiskistofu skýrslu um veiðar liðinnar vertíðar á formi sem Fiskistofa lætur í té.  Þetta er  gert með því að skrá upplýsingar um  afla og verð í umsókn um grásleppuveiðileyfi vegna næstu vertíðar.

Fiskistofa vekur sérstaka athygli á að kaupendur á grásleppu samkvæmt hafnarvigtarnótu skulu standa skil á mán­aðar­legum vigtar- og ráðstöfunarskýrslum þar sem fram koma upplýsingar um ráðstöfun á hvelju og hrognum.

Leiðbeiningar um skil á vigtar-og ráðstöfunarskýrslum

Flutningur grásleppuréttina milli báta:

Heimilt er að flytja rétt til grásleppuveiða á milli báta. Það er þó bundið ákveðnum skilyrðum:

  • Báturinn sem réttindin eru flutt frá hafi nýtt réttindin í a.m.k. eina vertíð.
  • Ekki má flytja réttindin til báts sem er meira en 2,5 brúttótónnum stærri en báturinn sem flutt er frá og aldrei til báts sem er stærri en 15 brúttótonn.
  • Sama regla gildir um breytingar á bátum, ekki má gefa út leyfi til grásleppuveiða til báts sem stækkaður hefur verið umfram 2,5 brúttótonn, nema að til bátsins hafi verið flutt réttur til veiða af öðrum báti sem er a.m.k. jafn stór í brúttótonnum og stækkunin sem af breytingunni leiðir, og ekki má stækka bát þannig að hann verði stærri en 15 brúttótonn.

Réttindi til grásleppuveiða fylgja báti við sölu hans nema annað sé sérstaklega tekið fram í kaupsamningi og það tilkynnt Fiskistofu innan 30 daga frá sölu.
Tungumál síðu
banner5
Þetta vefsvæði byggir á Eplica