Strandveiðar

Strandveiðar 2017

Á tímabilinu maí, júní, júlí og ágúst er heimilt að veiða á handfæri allt að 9.200 lestir af óslægðum botnfiski á strandveiðum. Sá afli reiknast ekki til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra fiskiskipa sem stunda veiðarnar.

Fái fiskiskip leyfi til strandveiða, falla úr gildi önnur veiðileyfi sem skipið kann að hafa innan íslenskrar lögsögu. Þó getur fiskiskip ekki stundað strandveiðar ef flutt hefur verið meira aflamark, í þorskígildum talið, frá skipi en flutt hefur verið til þess.

Reglur um strandveiðarnar:

 • Einungis er heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til   strandveiða fyrir eitt fiskiskip.
 • Eigandi fiskiskips skal vera lögskráður á skipið. Þegar fiskiskip er í eigu lögaðila er fullnægjandi ef einn eigenda lögaðilans er lögskráður á skipið. Í umsókn lögaðila um leyfi til strandveiða skulu koma fram upplýsingar um eignarhald á lögaðilanum og þann/þá sem koma til með að vera lögskráðir á fiskiskip.
 • Ekki er heimilt að stunda veiðar á föstudögum, laugardögum og sunnudögum eða á lögbundnum frídögum.
 • Ekki má veita fiskiskipi leyfi til strandveiða hafi aflamark, í þorskígildum talið, verið flutt af því umfram það aflamark sem flutt hefur verið til þess á sama fiskveiðiári.
 • Veiðiferð má ekki standa lengur en í 14 klst. og eingöngu er heimilt að fara í eina veiðiferð á hverjum degi.
 • Skipstjóri skal tilkynna um upphaf veiðiferðar um næstu strandstöð. Skylt er að vera með sjálfvirkan staðsetningarbúnað um borð.
 • Hámarksfjöldi handfærarúlla um borð eru 4 og ekki er heimilt að hafa önnur veiðarfæri um borð.
 • Eingöngu er heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð og skal öllum afla landað í lok veiðiferðar og hann vigtaður endanlega á Íslandi. Þorskígildi miðast við slægðan fisk.

Veiðisvæði

Landinu er skipt í fjögur veiðisvæði. Leyfi til strandveiða eru veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðaraðila viðkomandi báts er skráð og eingöngu er heimilt að landa afla innan þess landsvæðis á veiðitímabilinu. Aflamagn er háð takmörkunum fyrir hvert landsvæði innan hvers mánaðar. Sé heimildin ekki fullnýtt flyst heimildin á milli mánaða, allt til ágústloka. Í reglugerð 322/2017 um strandveiðar fiskveiðiárið 2016/2017 er veiðisvæðum og magni á hverjum tímabili skipt svo:

 • Svæði A: Eyja- og Miklaholtshreppur til Súðavíkurhrepps. Í hlut þess koma 852 tonn í maí, 1.023  tonn í júní, 1.023  tonn í júlí og 512 tonn í ágúst.
 • Svæði B: Strandabyggð til Grýtubakkahrepps. Í hlut þess koma 521 tonn í maí, 626 tonn í júní, 626 tonn í júlí og 313 tonn í ágúst.
 • Svæði C: Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps. Í hlut þess koma 551 tonn í maí, 661 tonn í júní, 661 tonn í júlí og 331 tonn í ágúst.
 • Svæði D: Sveitarfélagið Hornafjörður til Borgarbyggðar. Í hlut þess koma 600 tonn í maí, 525 tonn í júní, 225 tonn í júlí og 150 tonn í ágúst.

Umsóknir og skilyrði sem uppfylla þarf

Strandveiðar hefjast 2. maí. Fiskistofa tekur á móti umsóknum og afgreiðir veiðileyfi rafrænt í gegnum þjónustugáttina UGGA. Opnað verður  fyrir umsóknir þegar reglugerðin birtist í Stjórnartíðindum..

Þeir sem ekki hafa útvegað sér aðgang að Ugga eru hvattir til að nýskrá sig í kerfið við fyrsta tækifæri og vera þá tilbúnir með notendanafn og lykilorð. Nýskráning fer fram hér.

Fiskistofa vill koma nokkrum mikilvægum atriðum varðandi umsóknir og afgreiðslu strandveiðileyfa á framfæri:

 • Haffæri skipsins sem sótt er um leyfi fyrir verður að vera í gildi á gildistökudegi veiðileyfisins sem sótt er um. Samgöngustofa sér um útgáfu haffæriskírteina.
 • Ekki er hægt að sækja um strandveiðileyfi fyrir s.k. „þróunarsjóðsbáta“.
 • Fiskistofu er eingöngu heimilt að veita einu skipi hjá hverri útgerð leyfi til strandveiða.
 • Eigandi fiskiskips skal vera lögskráður á skipið.  Þegar fiskiskip er í eigu lögaðila er fullnægjandi ef einn eigenda lögaðilans er lögskráður á skipið.  Í umsókn lögaðila um leyfi til strandveiða skulu koma fram upplýsingar um eignarhald á lögaðilanum og þann/þá sem koma til með að vera lögskráðir á fiskiskip, ásamt staðfestingu á að enginn eigenda lögaðila eigi aðild að öðru strandveiðileyfi.
 • Fiskistofu er ekki heimilt að gefa út strandveiðileyfi til skips hafi aflamark í þorskígildum talið, umfram það aflamark sem flutt hefur verið til skips, verið flutt frá skipinu. Frá því að sótt er um strandveiðileyfi er ekki heimilt að fara yfir þessi viðmið.
 • Eingöngu er hægt að sækja um leyfi á því svæði sem útgerð er með heimilisfesti á.
 • Gjald fyrir strandveiðileyfi er 22.000 kr. Auk þess sér Fiskistofa um innheimtu s.k. strandveiðigjalds sem er 50.000 kr. á leyfi, því gjaldi er síðar ráðstafað til þeirra hafna þar sem strandveiðiafla er landað, sbr. 1. gr. laga nr. 33/2000 um veiðieftirlitsgjald. Til þess að virkja strandveiðileyfi þarf því að greiða 72.000 kr. Athygli er vakin á því að að strandveiðum loknum verður veiðigjald lagt á landaðan afla skv. lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld með síðari breytingum. Greiðsluseðlar fyrir þeim verða sendir út í lok ágúst.
 • Sækja þarf um fyrir kl. 15:00 á virkum degi ef hefja á veiðar næsta dag eða fyrir kl. 15:00 á föstudegi ef hefja skal veiðar næsta mánudag.
 • Þegar umsókn um strandveiðileyfi hefur verið samþykkt verður til greiðsluseðill sem birtist í heimabanka umsækjanda og/eða berst með pósti.  Óski aðili þess að strandveiðileyfi taki gildi næsta virka dag frá móttöku greiðsluseðils er mikilvægt að greiðsluseðlarnir séu greiddir fyrir klukkan 21.00 (bankaafgreiðslutími) daginn áður.  Fari greiðsla fram eftir kl. 21 tekur leyfið ekki gildi fyrr en á öðrum degi frá greiðslunni. Þá tekur leyfi ekki gildi fyrr en næsta þriðjudag fari greiðsla fram eftir kl. 21 á föstudegi. Fari greiðsla fram um helgi, á almennum frídegi eða eftir kl. 21 á virkum degi tekur leyfið ekki gildi fyrr en á öðrum virkum degi eftir að greiðsla fór fram.


Tungumál síðu
banner5
Þetta vefsvæði byggir á Eplica