Umhverfismál laxfiska

Umhverfismál laxfiska

Í V. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði er fjallað um gerð fiskvega og aðrar framkvæmdir við ár og vötn, sem haft geta áhrif á vistkerfi laxfiska. Til þessa teljast laxastigar, bakkavarnir, breytingar á farvegi, veiðistaðagerð, gerð sleppitjarna fyrir seiði og efnistaka í og við ár og vötn. Um slíkar framkvæmdir ber að sækja til lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu á sérstökum eyðublöðum, sem hægt er að nálgast á vefsíðu stofnunarinnar. Megintilgangur þessara lagaákvæða er að verja búsvæði laxfiska og koma í veg fyrir skaða á lífríki í ám og vötnum. Ofangreind lagaákvæði snerta einnig mengandi starfsemi, sem reist er innan 100 metra frá veiðivatni, svo sem fiskeldisstöðvar og verksmiðjur, en að öðru leyti heyra starfsleyfisveitingar og eftirlit með mengandi starfsemi undir verksvið Umhverfisstofnunar.

Mannvirkjagerð og efnistaka

Ákvæði um leyfisveitingar vegna mannvirkjagerðar og efnistöku er að finna í 33. grein laga um lax- og silungsveiði, sem er svohljóðandi: “Sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, er háð leyfi Fiskistofu.” Einnig í sömu grein: “Með umsókn framkvæmdaraðila eða landeiganda til Fiskistofu um leyfi til framkvæmda við ár og vötn skulu fylgja álit viðkomandi veiðifélags þegar það á við og umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns. Leyfi Fiskistofu skal aflað áður en ráðist er í framkvæmd.” Fiskistofa getur krafist þess að framkvæmdaraðili láti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi er veitt. Kostnaður vegna líffræðilegra úttekta skal greiddur af þeim sem óskar eftir leyfi til framkvæmda

Fiskvegir

Í 34. grein laga um lax- og silungsveiði eru svohljóðandi ákvæði um gerð fiskvega og laxastiga í ám og vötnum: “Fiskistofa getur, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, heimilað veiðifélögum eða veiðiréttarhöfum, þar sem ekki er veiðifélag, að gera fiskveg eða önnur sambærileg mannvirki í vatni eða meðfram vatni. Þar sem ekki er starfandi veiðifélag þarf ósk um slíkt að koma frá a.m.k. 2/3 veiðiréttarhafa.” Í sumum tilfellum gera lög ráð fyrir að hægt sé að beita eignarnámi vegna slíkra framkvæmda. Um bætur fer þá samkvæmt eignarnámsmati.

Mannvirkjagerð samkvæmt öðrum lögum

Í sumum tilfellum eru gerð stíflu- eða áveitumannvirki í ám samkvæmt ákvæðum annarra laga, m.a. vegna raforkuframleiðslu, eða til að verjast ágangi vatns, t.d. vegna landgræðslu. Þar geta m.a. komið til sérlög um stóriðjuframkvæmdir. Í 35. grein laga um lax- og silungsveiði eru svohljóðandi ákvæði um mótvægisaðgerðir vegna áhrifa slíkra virkjana á fiskgengd: “Ef heimiluð er á grundvelli annarra laga gerð mannvirkis sem tálmar fiskför í eða við veiðivatn er þeim sem heimild fær skylt að kosta gerð og viðhald fullnægjandi fiskvegar samkvæmt ákvæðum 34. gr.”

Tveir_laxar_i_vatni

Finna skip

Tungumál síðu
nordura03a
Þetta vefsvæði byggir á Eplica