Ósamat

Matgjörðir vegna ósa veiðivatna

Í samræmi við lög um lax- og silungsveiði er mjög algengt að félagssvæði veiðifélaga nái frá ósi í sjó upp ána svo langt sem fiskur gengur, þ.e. að ófiskgengum fossi. Efri mörk svæðisins eru að jafnaði skýr en neðri mörkin geta verið breytileg eftir því hvernig aðstæður eru við ós í sjó. Þar skiptir mestu máli vatnsmagn árinnar, stærð óss og sá munur sem er á flóði og fjöru á viðkomandi svæði.

 

Samkvæmt skilgreiningu  lax- og silungsveiðilaganna telst ós veiðivatns í sjó vera sá staður þar sem straumur ár hverfur um stórstraumsfjöru. Þegar mikill munur er á flóði og fjöru, og jafnvel aðgrunnt, getur þessi staður verið þó nokkra vegalengd frá strönd og ekki auðvelt fyrir leikmenn að ákvarða mörkin. Þessi mörk eru þó mjög mikilvæg, þar sem við þau er miðað þegar reiknað er út friðunarsvæði fyrir utan ós veiðivatna gagnvart netaveiði, en það getur verið frá 1,5 upp í 2 kílómetra eftir því vatnsmagni sem rennur um ána í sjó fram (sbr. 3. mgr. 15. greinar laganna). Þar sem málið er oft ekki einfalt geta verið uppi  deilur við eigendur sjávarjarða um rétt mörk ósasvæðisins eða við eigendur nærliggjandi fallvatna sem einnig kynnu að hafa óljóst ósasvæði.

 

Í 45. grein laga nr. 61/2006 um lax og silungsveiði stendur í 2. Mgr.: „Nú greinir menn á um hvar um sé að tefla sjó, straumvatn, stöðuvatn, á , ós, ósasvæði, kvísl, ál eða takmörk fiskihverfis og er þá heimilt að bera ágreininginn undir úrskurð matsnefndar.”   Eins og hér kemur fram hefur löggjafinn ákveðið að gefa aðilum kost á því að láta fara fram mat á ýmsum atriðum sem óljós geta talist eða deilt er um í tengslum við ýmis málefni laxveiðilaganna. Matsbeiðendur bera að öllu jöfnu þann kostnað sem fylgir matsgjörð.

 

Fiskistofa birtir hér framvegis á heimasíðu sinni þá úrskurði um ós í sjó, ósasvæði eða önnur þau atriði sem upp kunna að koma innan eða milli veiðifélaga og gefnir eru út af  matsnefnd sem skipuð er samkvæmt 44. grein laga um lax- og silungveiði. Til upplýsingar verða einnig birtar þær matsgerðir um  ósa sem fyrir liggja frá fyrri tímum.

Sjá úrskurði

Finna skip

Tungumál síðu
nordura03a
Þetta vefsvæði byggir á Eplica