Afli og aflaverðmæti

Afli, kvótaívilnanir og aflaverðmæti

4.1 Löndun afla                                                

Fiskistofa á samstarf við löndunarhafnir um vigtun og skráningu landaðs afla. Niðurstöður vigtunar á afla eru skráðar í aflaskráningarkerfið GAFL (Gagnagrunn Fiskistofu og Löndunarhafna). Þetta gera starfsmenn löndunarhafna og eru upplýsingarnar sendar jafnóðum á rafrænu formi í gagnagrunn Fiskistofu. Í GAFLinum hefur Fiskistofa ávallt nýjustu fáanlegar upplýsingar um afla og fylgist náið með aflaheimildum einstakra skipa. Á fiskveiðiárinu 2018/2019 voru 50.681 landanir skráðar í aflaskráningarkerfið. Þetta er sambærilegur fjöldi landana og í fyrra.

Bolungarvík er sú höfn þar sem flestar landanir fóru fram á síðasta fiskveiðiári eða 3.833 talsins. Þeim fækkaði um 460 frá fiskveiðiárinu 2017/18. Næst kemur Sandgerði með 3.037 og Ólafsvík með 2.847 landanir.

 


4.2 Afli og kvótaívilnanir

Heildarafla íslenskra skipa í botnfiski til aflamarks má sjá í töflu 4.2. Ef borinn er saman heildarafli og afli sem reiknaður er til aflamarks er nokkur munur þar á. Helsta skýringin á því er afli sem er undanþeginn aflamarki vegna sérreglna sem um hann gilda, s.s. reglur er varða línuafla, afla sem rennur til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins (VS-afla), undirmálsafla og afla í strandveiðum. Línuívilnun náði á síðasta fiskveiðiári eins og undanfarin ár til þorsks, ýsu, steinbíts, gullkarfa, löngu og keilu. Á síðasta fiskveiðiári mátti veiða 3.000 tonn af þorski, 1.000 tonn af ýsu, 700 tonn af steinbít, 30 tonn af gullkarfa, 100 tonn af löngu og 25 tonn af keilu miðað við slægðan fisk umfram aflamark á sérstaklega beitta línu. Eins og sjá má á töflu 4.2 fullnýttu íslensk fiskiskip ekki heimildir sínar í línuívilnun. Enn eru íslensk fiskiskip að landa minna af VS-afla en hefur verið undanfarin ár, en hluti af andvirði þess afla greiðist í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Undirmálsafli af þorski var sambærilegur og í fyrra, en þá hafði hann lækkað um tæp 30%.  

Á hverju ári veiða íslensk skip fjölda tegunda sem ekki eru bundnar aflamarki. Á síðasta fiskveiðiári var grásleppa mest veidda ókvótabundna tegundin með 5.035 tonn. Næst mest var veitt af sæbjúgum eða 4.624 tonn. Bæði veiðar sæbjúgum og grásleppu eru bundnar sérstöku veiðileyfi sem Fiskistofa gefur út.


4.3  Aflaverðmæti

Upplýsingar um aflaverðmæti og ráðstöfun afla eru fengnar úr vigtar- og ráðstöfunarskýrslum sem kaupendur sjávarafla skila til Fiskistofu. Í þeim tilgangi hefur stofnunin tekið upp rafrænt kerfi þar sem skýrslum er skilað í gegnum vefviðmót. Það kerfi komst í fulla notkun á fyrsta ársfjórðungi 2018. Aflaverðmæti þorsks á síðasta fiskveiðiári nam tæplega 69 milljörðum króna en hefur hækkað jafnt og þétt eftir mikinn samdrátt árið 2016/17. Verðmæti ýsuaflans jókst einnig aftur um rúmlega 5 milljarða. Aflaverðmæti makríls voru rúmlega 10 milljarðar fiskveiðiárið 2018/2019. Aflaverðmæti íslenskra fiskiskipa var samtals tæpir 135 milljarðar króna og jókst um tæplega 17 milljarða á milli fiskveiðiára.

Á  fiskveiðiárinu 2018/2019 fór að venju mestur hluti þorskaflans í landfrystingu eða rúm 97 þúsund tonn (35,3%). Næst mest fór ísað í flug eða tæp 77 þúsund tonn (27,8%). Þessi ráðstöfun á þorskaflanum hefur aukist verulega á síðastliðnum árum. Rúm 42 þúsund tonn af þorski fóru í söltun sem er minna en á fyrra fiskveiðiári. Óunninn fiskur í gám var tæplega 35 þúsund tonn fiskveiðiárið 2018/2019 og hefur aukist um 240% á tveimur árum. Af makrílaflanum fóru um 83% í landfrystingu samanborið við 17% á fyrra ári. Rúm 13 þúsund tonn af makríl fóru í bræðslu samanborið við 20 þúsund tonn á vertíðinni 2018.
Frekari upplýsingar - Allur kaflinn  í prentvænni útgáfu

Fyrri kafli  -  Valmynd Ársskýrslu  -  Næsti kafli

Finna skip

Tungumál síðu
banner6
Þetta vefsvæði byggir á Eplica