Eftirlit á landi

Eftirlit á landi

Fiskistofa gefur út leyfi til vigtunar sjávarafla. Undanfarin ár hafa kröfur sem gerðar eru til heima- og endurvigtunarleyfishafa verið auknar, bæði hvað varðar gögn og upplýsingar sem umsækjendur um leyfi láta Fiskistofu í té og einnig er varðar aðbúnað til vigtunar, virkt innra eftirlit leyfishafa, nákvæmni og rekjanleika í skráningum frá vigtun sjávarafla. 

Við lok árs 2017 voru alls 114 vigtunarleyfi í gildi á landinu öllu. Þar af voru 16 heimavigtunarleyfi, 95 endurvigtunarleyfi og 3 vigtunarleyfi sjálfstæðra aðila.

Veginn afli íslenskra fiskiskipa í kvótabundnum tegundum til skráningar á aflamarki hjá vigtunarleyfishöfum nam rúmum 223.500 tonnum á árinu 2017 ef miðað er við slægðan afla. Þar af var 60,6% vigtað hjá vigtunarleyfishöfum en tæpum 30% lokað með vigtun á hafnarvog.

Eitt stærsta eftirlitsverkefni Fiskistofu í landi er eftirlit með vigtun og skráningu sjávarafla. Í því felst m.a. eftirlit með vigtun sjávarafla hjá vigtunarleyfishafa, úttektir hjá aðilum sem sækja um ný leyfi eða endurnýjun leyfa og eftirlit með vigtun á hafnarvog.

Eftirlit með vigtunarleyfishöfum hefur undanfarin ár verið byggt á áhættuflokkun. Markmið slíkrar áhættuflokkunar er að beina eftirliti þangað sem mest þörf er talin fyrir hendi. Áhættuflokkunin er byggð á ýmsum þáttum t.d. vegnu magni, fjölda vigtanna, fjölda skipa sem landa hjá viðkomandi leyfishafa o.s.frv. 

Fiskistofa birti á vef sínum á árinu, líkt og undanfarin ár, niðurstöður endurvigtunar hjá leyfishöfum þar sem stofnunin hafði eftirlit með vigtun yfir tveggja mánaða tímabil í senn. Þar er borið saman íshlutfall þegar eftirlit er haft með vigtunum við íshlutfall landana á undan og á eftir. Hefur þetta framtak vakið athygli. Sömuleiðis má á vefsvæði Fiskistofu finna upplýsingar um allar landanir skipa á Íslandi sem og hlutfall íss í afla við endurvigtun hjá leyfishöfum í hverri löndun fyrir sig.

Árið 2017 samþykkti Alþingi breytingu á lögum um umgengni við nytjastofna sjávar. Þar var Fiskistofu veitt heimild til að fylgjast með allri vigtun hjá vigtunarleyfishafa, komi í ljós að veruleg frávik séu á íshlutfalli í afla hjá leyfishafa þegar Fiskistofa hefur eftirlit með vigtun samanborið fyrri vigtanir til viðkomandi leyfishafa. Fiskistofa hóf á haustmánuðum að beita þessu úrræði þar sem stofnunin taldi að veruleg frávik væru í hlutfalli kælimiðils hjá vigtunarleyfishöfum eftir því hvort eftirlit væri haft með vigtun eða ekki.

 

Frekari upplýsingar - Allur kaflinn  í prentvænni útgáfu

 

Fyrri kafli  -  Valmynd Ársskýrslu  -  Næsti kafli

 

 


Finna skip

Tungumál síðu
banner1
Þetta vefsvæði byggir á Eplica