Eftirlit á sjó

Eftirlit á sjó

Árið 2017 fóru veiðieftirlitsmenn Fiskistofu í 306 veiðiferðir með fiskiskipum. Veiðiferðir þessar stóðu samtals yfir í 1.173 daga. Farið var í 24 veiðiferðir með vinnsluskipum samtals í 505 daga og  281 veiðiferð með öðrum fiskiskipum, samtals  í 668 daga.

Meðal starfa eftirlitsmanna um borð í veiðiskipum er að fylgjast með tegunda- og stærðarsamsetningu afla sem felst í því að lengd fisks er mæld, hann er kvarnaður og upplýsingum og sýnum er safnað í þágu hafrannsókna og fiskveiðistjórnunar. Einnig fylgja eftirlitsmenn því eftir að skráning í afladagbók sé gerð með réttum hætti, meðal annars að öll sjávarspendýr og fuglar sem í veiðafæri koma séu skráð og botndýr eins og svampar myndaðir og mældir.  Á árinu 2017 mældu eftirlitsmenn Fiskistofu alls 311.277 fiska og kvörnuðu 3.134 fiska. Einnig mældu eftirlitsmenn Fiskistofu 10.596 skeldýr og 287 sjávarspendýr og fugla. Lengdarmælingar fara fram á sjó og í landi og með þeim er m.a. safnað gögnum til rannsókna á stærðartengdu brottkasti.

Brottkastsverkefnið felur í sér athugun og mat á brottkasti fisks undir tiltekinni lengd og með tilteknu veiðarfæri og er það unnið í samstarfi við Hafrannsóknastofnun sem gefur út skýrslu árlega þar sem tölfræðilegar niðurstöður verkefnisins eru birtar. Árið 2017 var brottkast mælt úr veiðarfærunum botnvörpu og línu. Í brottkastverkefninu eru þorskur og ýsa mæld úr lönduðum afla og afla upp úr sjó frá sama skipi í samliggjandi veiðiferðum. Eru þessar mælingar síðan bornar saman ef veiðisvæði beggja mælinga er í sama tilkynningarskyldureit, einnig er möguleiki á að para saman mælingar af sama svæði frá mismunandi skipum. Aðferðin byggist á því að brottkast sé lengdarháð og smáfiski sé hent en stærri fiskur hirtur.  Mismunur þessara mælinga er síðan notaður til að meta brottkast. Árið 2017 mældu eftirlitsmenn Fiskistofu samtals 151.593 fiska í brottkastverkefninu.

 

 

Frekari upplýsingar - Allur kaflinn  í prentvænni útgáfu

 

Fyrri kafli  -  Valmynd Ársskýrslu  -  Næsti kafli

 


Finna skip

Tungumál síðu
banner1
Þetta vefsvæði byggir á Eplica