Frá fiskistofustjóra

Frá fiskistofustjóra

Fiskistofa fagnaði 25 ára afmæli á árinu 2017 með glæsilegri móttöku 15. nóvember fyrir helstu viðskiptavini stofnunarinnar og samstarfsaðila.  Fiskistofa tók einnig þátt í Sjávarútvegssýningunni 2017 og þar gafst tækifæri til að kynna starfsemina sem og að kynna þær margvíslegu upplýsingar sem aðgengilegar eru á vef stofnunarinnar. Gestkvæmt var á bás Fiskistofu og vakti þátttaka stofnunarinnar verðskuldaða athygli. Ljóst er að mikill áhugi er fyrir því að kynnast stofnuninni og starfsemi hennar og kemur til skoðunar að endurtaka leikinn.

 

Óvissa sem skapaðist í kringum flutning höfuðstöðva Fiskistofu til Akureyrar er nú að baki og starfsemin í góðu jafnvægi. Á næstu vikum mun Fiskistofa birta skýrslu um flutninginn, áhrif á starfsemina, mannauð og kostnað enda er mikilvægt að áhrif svo umfangsmikilla breytinga séu metin.

 

Frá stofnun, 1. september 1992, hefur Fiskistofa haft með höndum og borið ábyrgð á upplýsingatæknimálum Hafrannsóknastofnunar og hefur það samstarf gengið mjög vel. Í sumar óskaði Hafró eftir því að taka yfir upplýsingatæknimál sín þar sem miklar breytingar á því sviði standa nú yfir hjá þeim. Unnu stofnanirnar að því verkefni á haustmánuðum og fluttust þrír starfsmenn upplýsingatæknisviðs Fiskistofu til Hafró í október og tveir til viðbótar um áramót. Þetta hefur óneitanlega í för með sér miklar breytingar á sviði upplýsingatæknimála stofnunarinnar. Nú stendur yfir stefnumótunarvinna með víðtækri þátttöku starfsmanna þar sem Fiskistofa setur sér framtíðarsýn til næstu 5 ára, sóknaráætlun og mælanleg markmið. Er þar m.a. litið til stefnu íslenskra stjórnvalda varðandi málaflokkinn og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

 

Mikilvægi rekjanleika sjávarafurða fer stigvaxandi ár frá ári þar sem krafa markaðarins ræður för. Brýnt er að Ísland fylgi þeirri þróun og leggja þarf aukna áherslu á þau mál til að tryggja aðgang að bestu mörkuðum fyrir sjávarafurðir. Ísland hefur einstaka aðstöðu til að ná forskoti og vera leiðandi á sviði rekjanleika með traustum og áreiðanlegum upplýsingum sem tryggt geta áreiðanlegan rekjanleika frá veiðum til neytenda. Þá sérstöðu eigum við að nýta. Fiskistofa gegnir lykilhlutverki þegar kemur að öflun og miðlun upplýsinga um sjávarútveg en áreiðanlegar rauntímaupplýsingar eru grundvöllur gagnsæis og trausts og leggur grunn að rekjanleika. Rétt vigtun og skráning sjávarafla er ein af burðarstoðum fiskveiðistjórnunarkerfisins og grundvöllur þess að hægt sé að tryggja öruggan rekjanleika og sýna fram á sjálfbæra og ábyrga nýtingu auðlinda hafsins. Það eru því mikilvægir hagsmunir greinarinnar og um leið þjóðarinnar allrar að aflaskráning sé rétt og áreiðanleg.

 

Fiskistofa birtir reglulega á heimasíðu sinni upplýsingar um hlutfall kælimiðils (íss) í endurvigtuðum afla þar sem borið er saman íshlutfall þegar eftirlit er með vigtun og hlutfall íss þegar vigtað er án aðkomu eftirlits. Samanburður þessi hefur leitt í ljós að munur getur verið umtalsverður og hefur í nokkrum tilvikum leitt til þess að Fiskistofa fylgdi málum eftir með samfelldu eftirliti í nokkurn tíma á kostnað vigtunarleyfishafa. Aukið gagnsæi um endurvigtun veitir aðhald og er til þess fallið að styrkja eftirlit verulega. Þess ber að geta að í mörgum tilvikum er gott samræmi í hlutfalli kælimiðils í slíkum samanburði sem staðfestir öguð og vönduð vinnubrögð vigtunarleyfishafa sem og vilja og metnað til réttrar aflaskráningar.

 

Áhættugreining og áhættumiðað eftirlit hefur reynst gagnlegt og aukið skilvirkni. Fiskistofa

vinnur hörðum að því að styrkja þann þátt starfseminnar. Þrátt fyrir að starfsfólki í eftirlitsverkefnum hafi fækkað er fjöldi mála sem Fiskstofa tekur til rannsóknar og meðferðar svipaður á síðustu fimm árum. Með aukinni rafrænni vöktun og áhættugreiningu má efla eftirlit og auka aðhald með litlum tilkostnaði en til þess að svo geti orðið þarf skýrar lagaheimildir til rafrænnar vöktunar og notkunar myndavéla til eftirlits.

 

Fiskistofa vinnur ötullega að því að tæknivæða verkferla og láta tæknina leysa mannshöndina af hólmi. Vigtar- og ráðstöfunarskýrslum er nú alfarið skilað rafrænt og millifærslur aflamarks fara sömuleiðis fram með rafrænni sjálfsafgreiðslu aðila. Fiskistofa leiðir nú hönnun og gerð smáforrits fyrir snjalltæki sem ætlað er að leysa af hólmi afladagbækur á pappírsformi hjá þeim hluta smábátaflotans sem enn skilar pappírsdagbókum. Til lengri tíma litið stefnir Fiskistofa að því að samtengja rafrænar skráningar úr afladagbókum, aflaskráningu í löndunarhöfn, endurvigtunar/heimavigtunarupplýsingar og vigtar- og ráðstöfunarskýrslur með það að markmiði að fá rafrænan samanburð upplýsinga, stóraukið gagnsæi og rafræna vöktun. Þá er langt komið umfangsmikið verkefni sem felst í endurnýjun og endurskipulagningu innri tæknimála eins og tölvupóstkerfi, gæða- og skjalakerfi. Með því næst samhæfing kerfa sem leiða mun til aukinnar hagkvæmni, skilvirkni og öryggis.

Akureyri, mars 2018

Eyþór Björnsson, fiskistofustóri

 

 

 

 

Prentvæn útgáfa ársskýrslu Fiskistofu 2017 í heild

Valmynd Ársskýrslu  -  Næsti kafli


Finna skip

Tungumál síðu
banner2
Þetta vefsvæði byggir á Eplica