Frá fiskistofustjóra

Frá fiskistofustjóra


Hlutverk Fiskistofu er að gæta hagsmuna þjóðarinnar við sjálbæra nýtingu auðlinda hafs og vatna. Ábyrg umgengni um sameiginlega auðlind þjóðarinnar í hafinu, sem stuðlar að sjálbærri nýtingu, á að vera forgangsmál. Þar fara saman hagsmunir sjávarútvegsins, stjórnvalda og þjóðarinnar allrar. Fiskistofa er ein af mikilvægustu undirstöðum þessa. Eftir umrót og breytingar liðinna ára hefur Fiskistofa endurskoðað og skilgreint upp á nýtt hlutverk sitt og meginstoðir starfseminnar. Einnig hefur verið sett fram skýr framtíðarsýn og metnaðarfull sóknar- áætlun til 2022. Þar spilar gagnsæi, miðlun upplýsinga og rekjanleiki stórt hlutverk.

Gagnsæi er grunnstoð í fiskveiðistjórnun Íslendinga og er undirstaða árangurs og trausts í starfsemi Fiskistofu. Til þess að rækja hlutverk sitt sem best beitir Fiskistofa margvíslegum aðferðum og má í því sambandi nefna samvinnu við útgerðir og fiskvinnslur, áhættugreiningu og aðgengi allra að upplýsingum um veiðar og afla. Um nokkurt skeið hefur Fiskistofa birt á heimasíðu sinni yfirlit yfir hlutfall kælimiðils í afla við endurvigtun og auðkennt þær vigtanir sem eftirlit hefur verið með. Þar er um að ræða myndræna birtingu á upplýsingum sem fyrir liggja hjá stofnuninni. Eftir að Fiskistofa hóf að birta slíkar samanburðarniðurstöður hafa frávik minnkað, sem bendir til þess að opinber birting upplýsinganna hafi bæði varnaðaráhrif og veiti aðhald.

Skýrar og auðskiljanlegar upplýsingar eru ekki síst til þess fallnar að auka vitund um leiðir til að bæta nýtingu auðlindarinnar og stuðla að upplýstri umræðu. Slíkar upplýsingar eru gagnlegar opinberum aðilum og fjölmiðlum en einnig aðilum í sjávarútvegi til að undirbyggja umræðu á skýrum og einföldum staðreyndum sem stafa frá stjórnvöldum. Fiskistofa stefnir að því að auka birtingu upplýsinga um niðurstöður eftirlits. Sem dæmi má nefna myndræna framsetningu á upplýsingum um aflasamsetningu um borð í skipi þegar eftirlit er viðhaft borið saman við veiðiferðir þegar eftirlit er ekki til staðar.

Ríkisendurskoðun vann á árinu 2018 ítarlega og vandaða úttekt á eftirliti Fiskistofu með brottkasti, vigtun og skráningu sjávarafla og samþjöppun aflaheimilda. Niðurstöður þær sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar staðfesta margt það sem Fiskistofa hefur áður vakið athygli á, þ.e. að aukinn mannafla þurfi til að sinna eftirliti á vettvangi, endurskoða þurfi löggjöfina með tilliti til viðurlaga sem hafa varnaðaráhrif. Þá er augljóst afniðurstöðum skýrslunnar að huga þarf að nýjum leiðum til að halda uppi viðunandi eftirliti með umgengni um fiskveiðiauðlindina og nýtingu hennar. Í því sambandi má t.d. horfa til eftirlits með myndavélum um borð í veiðiskipum, en margra ára tilraunaverkefni, t.d. í Danmörku, hefur sýnt fram á að það er hagkvæm, árangursrík og skilvirk leið til halda uppi eftirliti sem hefur augljós varnaðaráhrif og veitir aðhald. Við þurfum að líta til reynslu og þekkingar annarra og taka upp þær aðferðir sem sannað hafa gildi sitt.

Fiskistofa er fyrst og fremst mannauðurinn sem stofnunin býr að. Undanfarin ár hefur verið lögð rík áhersla á að styrkja innviði og byggja upp sterka liðsheild og er óhætt að segja að vel hefur tekist til. Fiskistofa heldur uppi reglubundnum árangursmælingum og vinnur markvisst með þær upplýsingar sem þar koma fram. Og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Á myndinni hér að ofan má sjá hvernig heildareinkunn Fiskistofu í könnuninni „Stofnun ársins“ hefur hækkað hratt og örugglega undanfarin ár. Heildareinkunin endurspeglar þróun þeirra þátta sem mældir eru, eins og starfsandi, stjórnun og ánægja og stolt svo dæmi séu nefnd. Einkunn allra þátta hefur hækkað. Að sama skapi hefur Fiskistofa klifrað hratt og örugglega upp listann yfir

„Stofnun ársins“, frá 74. sæti árið 2015 og upp í 7. sæti árið 2018. Einnig má sjá jákvæð teikn á lofti í viðhorfsmælingum meðal almennings en Fiskistofa hefur stigið upp á við í mælingum sem Maskína gerir árlega. En betur má ef duga skal. Næsta skref er að vinna markvisst að því að styrkja og bæta ímynd stofnunarinnar, bæði meðal almennings en ekki síður á meðal aðila í sjávar- útvegi.

Akureyri, febrúar 2019

Eyþór Björnsson, fiskistofustjóri


Frekari upplýsingar - Allur kaflinn  í prentvænni útgáfu

 

Prentvæn útgáfa ársskýrslu Fiskistofu 2018 í heild

Valmynd Ársskýrslu  -  Næsti kafli


Finna skip

Tungumál síðu
banner5
Þetta vefsvæði byggir á Eplica