Frá fiskistofustjóra

Frá fiskistofustjóra

Hlutverk Fiskistofu er að gæta hagsmuna þjóðarinnar við sjálfbæra nýtingu auðlinda hafs og vatna..Fiskistofa leggur áherslu á að sinna því hlutverki innan lögsögu okkar með sóma, í nánu samstarfi við samstarfsstofnanir og aðila í greininni. En Íslendingar stunda einnig veiðar úr deilistofnum og eru aðilar að alþjóðlegum samningum þar um. Fiskistofa hefur þar mikilvægu hlutverki að gegna og kemur að ýmsum þáttum þar að lútandi svo sem tæknilausnum við miðlun upplýsinga og veiðieftirliti. Samstarf Fiskistofu við systurstofnanir í nágrannalöndunum er umtalsvert og er veigamikill þáttur í því að tryggja ábyrga nýtingu auðlinda hafsins. Í því skyni að styrkja fiskveiðistjórnun í alþjóðlegu samhengi hefur Fiskistofa gert samstarfssamninga við nágrannaþjóðirnar Noreg, Færeyjar og Grænland. Þjóðirnar eiga ríkra sameiginlegra hagsmuna að gæta þegar kemur að nýtingu auðlinda hafsins og eru fiskistofnar einn þeirra mikilvægustu. Samstarfssamningarnir taka til eftirlits með fiskveiðum sem felst m.a. í öruggri miðlun upplýsinga um veiðiskip þjóðanna og veiðar þeirra. Einnig fela samningarnir í sér samkomulag um miðlun þekkingar og þjálfun starfsfólks. Sá þáttur getur t.d. falist í því að eftirlitsmenn frá nágrannalöndunum komi hingað til lands og íslenskir eftirlitsmenn fari til samningslandanna til að fræðast um störf kollega sinna, bæði í formi fyrirlestra og vettvangsferða.


Samskipti og samstarf við erlenda aðila hefur ávallt verið mikilvægur þáttur í starfsemi Fiskistofu, annars vegar vegna þeirra verkefna sem að ofan er lýst en einnig vegna mikillar eftirspurnar eftir sérfræðiþekkingu þeirri sem starfsfólk Fiskistofu býr yfir. Á árinu 2018 hóf Fiskistofa samstarf við Alþjóðabankann um þróunarsamvinnu á sviði fiskveiðistjórnunar og hefur tekið þátt í þróunarsamvinnuverkefnum í Bangladesh og Víetnam. Í báðum tilvikum er um að ræða verkefni sem lúta að því að byggja upp frá grunni fiskveiðistjórnunarkerfi í löndunum. Fiskistofa hefur áður tekið þátt í þróunarsamvinnuverkefnum og þá með því að veita ráðgjöf er varðar upplýsingatækni og leysa slík verkefni hjá þróunarlöndum.


Sjávarútvegur á Íslandi þróast hratt og er nýsköpun og þróun tæknilausna stór hluti af greininni í dag. Mjög er horft til íslensks sjávarútvegs og er hann talinn vera í fremstu röð í heiminum. Það sama á við um stjórn fiskveiða á Íslandi. Aðrar þjóðir líta til Íslands sem þjóðar sem hefur tekist vel að varðveita fiskveiðiauðlindina og ástunda ábyrga fiskveiðistjórnun. Hlutverk Fiskistofu í þeim árangri er stórt. Stjórnvöld þurfa að gæta að því að glata ekki þeirri góðu stöðu. Samhliða því að tækni í veiðum og vinnslu fleygir fram þarf að huga að tækni við stjórn fiskveiða. Tregðu gætir meðal hagsmunaaðila í greininni þegar kemur að umræðu um nýjar tæknilausnir í veiðieftirliti. Andstaða er við birtingu á upplýsingum um samanburð á hlutfalli íss í afla hjá vigtunarleyfishafa eftir því hvort eftirlit er haft með vigtun eða ekki. Engu að síður hefur slík birting leitt til þess að munur á íshlutfalli miðað við ofangreindar forsendur hefur minnkað um 50% eftir að birtingar hófust og Fiskistofa fékk heimild til að hafa eftirlit með vigtunarleyfishafanum í allt að 6 vikur á hans kostnað þegar tilefni er til. Einnig er Fiskistofa farin að birta samanburð á aflasamsetningu veiðiskipa eftir því hvort eftirlitsmaður er um borð eða ekki. Í mörgum tilvikum er greinilegur munur þar á.


Í umræðu um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni hefur ítrekað verið fjallað um rafrænt eftirlit sem byggist á vöktun með myndavélum. Gæti það að mati Fiskistofu nýst mjög vel í löndunarhöfnum til að draga úr hættu á löndun afla framhjá vigt, hjá vigtunarleyfishöfum til að stuðla að réttri vigtun og skráningu sjávarafla og um borð í fiskiskipum til að sporna við brottkasti afla.


Fiskveiðiþjóðir í kringum okkur horfa til þess að nýta rafræna vöktun um borð í fiskiskipum og eru sumar hverjar mörgum skrefum á undan Íslendingum. Þjóð sem hefur metnað til að vera fremst í heiminum þegar kemur að sjálfbærri nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar þarf að skilja og virða mikilvægi þess að eftirlit, sem ætlað er að tryggja ábyrga umgengni um auðlindina, fái að þróast fram á við í takti við tækniþróun. Þar af leiðandi ætti að vera sterkur stuðningur við rafræna vöktun sem er skilvirk og ódýr leið til að treysta ímynd og trúverðugleika Íslands sem ábyrgrar fiskveiðiþjóðar.


Þegar þessi formáli er ritaður liggur það fyrir að undirritaður er að láta af störfum hjá Fiskistofu. Ég ætla að leyfa mér að nýta þetta tækifæri til að þakka öllu því góða fólki sem ég hef kynnst í gegnum störf mín á Fiskistofu fyrir ánægjulegt samstarf og góð kynni. Síðast en ekki síst þakka ég frábæru starfsfólki Fiskistofu fyrir samstarfið og samveruna í þau 14 ár sem ég hef starfað hjá Fiskistofu og fyrir að hafa gert Fiskistofu að þeim hlýlega, kraftmikla og skemmtilega vinnustað sem hún er.


Akureyri, febrúar 2020

Eyþór Björnsson, fiskistofustjóri


Frekari upplýsingar - Allur kaflinn  í prentvænni útgáfu

 

Prentvæn útgáfa ársskýrslu Fiskistofu 2019 í heild

Valmynd Ársskýrslu  -  Næsti kafli


Finna skip

Tungumál síðu
banner4
Þetta vefsvæði byggir á Eplica