Lax- og silungsveiði

Lax- og silungsveiði

Hafrannsóknastofnun safnar upplýsingum um veiði á laxi og silungi í umboði Fiskistofu og gefur árlega út skýrslu með samantekt um veiðina. Samkvæmt bráðabirgðatölum yfir stangveiði á laxi sumarið 2019 veiddust um 28.800 laxar, sem er sú minnsta frá árinu 2000 (Mynd 7.1). Mynd 7.2 sýnir netaveiði á laxi á árabilinu1974 til 2019. 

Í tölum um heildarlaxveiði eru þeir laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði (veitt og sleppt). Laxar úr gönguseiða-sleppingum eru viðbót við náttúrulega framleiðslu ánna og þegar veitt er og sleppt í stangveiði veiðast sumir fiskar oftar en einu sinni. Til að fá samanburð við fyrri ár mat Hafrannsóknastofnun hver laxveiðin hefði orðið ef engu hefði verið sleppt aftur og veiði úr sleppingum gönguseiða var dregin frá heildarveiðinni. Niðurstaðan úr þeirri greiningu leiðir í ljós að stangveiði á laxi 2019 hefði verið um 20.000 laxar, sem er minnsta stangveiði villtra laxa frá því farið var að skrá veiði í rafrænan gagnagrunn.Í öllum landshlutum, minnkaði laxveiði nema á Norðurlandi Eystra og Austurlandi. Laxveiðin sumarið 2019 einkenndist öðru fremur af miklum og fordæmalausum þurrkum allt sumarið sem gerði aðstæður til veiða afar erfiðar, einkum í dragám á vestanverðu landinu sem eru mjög háðar úrkomu yfir sumarið.

Vorið 2009 hófst samstarf milli Veiðimálastofnunar [nú Hafrannsóknastofnun] og Fiskistofu um hönnun á forriti til notkunar við rafræna skráningu í veiðibækur. Hugsunin er sú að þeir sem ábyrgð bera á veiðiskráningu fái aðgang að sérstökum gagnagrunni til skráningar. Fiskistofa fékk það hlutverk að hanna slíkan gagnagrunn en Veiðimálastofnun skipulagði og fylgdist með notkun hans í lykilám. Eldri veiði upplýsingar hafa verið lesnar inn í gagnagrunnin þannig að nú er þar að finna heildstæðar upplýsingar um veiði í íslenskum ám undanfarna áratugi. Sumarið 2019 var ellefta sumarið sem laxveiði var skráð í þennan rafræna gagnagrunn. Þegar rafræn skráning verður orðin almenn hjá veiðifélögum, eins og stefnt er að, mun það spara mikla vinnu við innslátt gagna sem Hafrannsóknastofnun annast. Sú breyting varð 2018 að upplýsingatæknimenn sem önnuðust gerð hugbúnaðarins eru nú starfsmenn Hafrannsóknastofnunar. Áframhaldandi þróun á viðmóti til að taka við og miðla upplýsingum um lax- og silungsveiði verður þó áfram samstarfsverkefni Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu. Eins og áður verður veiðibókum úthlutað til veiðifélaga og upplýsingum um veiði safnað í þær við veiðiár.

Á árinu voru seld 850 útvortis slöngumerki til að merkja laxfiska ásamt 50.000 örmerkjum vegna seiðasleppinga og rannsókna tengdum þeim. Kaupendur voru bæði ýmsir sem rannsaka fisk í ám og vötnum og stangveiði eða veiðifélög vegna sleppinga á veiddum laxi í ár. Skila skal skýrslu um notkun merkjanna til Fiskistofu. Á haust dögum 2018 og í byrjun árs 2019 bárust 441 örmerkjasnoppur til Hafrannsóknastofnunar og Laxfiska ehf til aflestrar vegna laxa sem veiddust árið 2018. Einnig bárust frá veiðimönnum um 50 útvortis merki. Lesin merki eru færð í gagnagrunn sem borinn er saman við merkjagrunn til að fá nánari upplýsingar um sleppi hópa sem viðkomandi merki tilheyra. Upplýsingar um merkta laxa eru sendar til Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES). Samtals örmerktu Hafrannsóknastofun og Laxfiskar ehf 62.931 laxaseiði 2018 sem síðan komu fram í veiðum 2019 sem eins árs lax. Um 7,0% laxaseiðanna voru af náttúrulegum uppruna (ekki eldisseiði). Til viðbótar 2018 voru 98 laxar merktir með útvortis merki. 

Á liðnum árum veitti Fiskistofa útdráttar verðlaun fyrir veiðimenn sem skilað hafa inn fisk merkjum. Megintilgangur verðlaunanna var að hvetja veiðimenn til að skila merkjum úr laxfiskum en endurheimtur á merktum fiskum geta gefið mikilvægar upplýsingar um líffræð iþeirra og atferli. Fiskistofa mun veita slík verðlaun vorið 2020.


Veiðifélög og veiðivarsla

Samkvæmt VI. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði ber Fiskistofa ábyrgð á því að stofnun veiðifélaga og starfsemi þeirra sé í samræmi við lög. Þannig staðfestir hún og birtir samþykktir og arðskrár veiðifélaga í Stjórnartíðindum. Á árinu voru þrjár samþykktir veiðifélaga til umfjöllunar. Tíu nýtingaráætlanir veiðifélaga voru til umfjöllunar hjá Fiskistofu. Í þeim koma fram þær reglur sem veiðifélög hafa sett með það að markmiði að viðhalda sjálfbærum lax- og silungsveiðum í ám og vötnum. Í nýtingaráætlunum er tiltekið leyfilegt veiðiálag og gefinn upp fjöldi stanga eða neta sem heimilt e rað nota. Miðað er við að stangafjöldi sé bundinn til átta ára en hvers konar friðunaraðgerðir eru ótímabundnar og háðar ákvörðun veiðifélags hverju sinni. Öllum veiðifélögum ber að setja sér nýtingaráætlun. Enn eiga mörg veiðifélög eftir að skila nýtingaráætlunum, einkum fyrir veiði í sjóbirtings- og sjóbleikjuám.

Fiskistofa fjallar um fiskræktaráætlanir veiðifélaga í samræmi við lög nr. 58/2006 um fiskrækt. Alls voru níu fiskræktaráætlanir til umfjöllunar hjá Fiskistofu 2019. Ábendingar og upplýsingar sem borist hafa Fiskistofu benda til þess að tilvik séu um að fiskrækt sé stunduð án þess að fyrir liggi staðfest fiskræktaráætlun. Á árinu 2019 vann Fiskistofa að því að bæta stjórnsýslu, upplýsingaöflun og eftirlit vegna fiskræktar. Í töflu 7.3 má sjá upplýsingar um fjölda seiða sem sleppt var í íslensk veiðivötn samkvæmt upplýsingum sem Fiskistofu hefur borist frá veiðifélögum.
Fiskistofu ber að úrskurða ef upp kemur ágreiningur innan veiðifélags um ákvarðanir og stjórnarhætti. Tvö mál bárust Fiskistofu vegna ágreinings um lögmæti ákvörðunar í veiðifélagi á árinu 2019.

Fiskræktarsjóður er sjálfstæður sjóður sem hefur það hlutverk að veita lán og styrki til að efla fiskrækt, bæta veiðiaðstöðu og styðja við rannsóknir í ám og vötnum. Breyting var gerð á lögum um fiskræktarsjóð og hefur verið fallið frá innheimtu gjalds frá veiðifélögum í sjóðinn. Áfram verða þó veittir styrkir úr sjóðnum. Stjórn sjóðsins fer með fjármál hans og úthlutar árlegum styrkjum vegna ýmissa verkefna. Núverandi formaður sjóðsins er Páll Árni Jónsson. Á vef Fiskistofu eru nánari upplýsingar um sjóðinn og skrá yfir úthlutanir Fiskræktarsjóðs fyrir árið 2019 og fyrri ár.


Skipulagsmál, mannvirkjagerð og efnistaka

Fiskistofa gefur út leyfi vegna framkvæmda við ár og vötn. Mörg erindi berast sem snúa að efnistöku. Þegar um minniháttar malartekju úr áreyrum hefur verið að ræða, og ekki er talið að lífríki skaðist, hefur landeigendum verið veitt heimild til langs tíma, allt að 5 árum. Sama gildir um árlega lagfæringu á farvegum ánna og veiðivegum á vorin fyrir veiðitíma. Nokkuð er um að efnistaka fari fram í óleyfi, en það eykur hættu á því að skaði hljótist af. Þegar ábendingar koma fram um slíkt hefur Fiskistofa rannsakað málin og látið stöðva framkvæmdir eftir atvikum. Árið 2019 voru 74 leyfi veitt vegna margvíslegra framkvæmda við ár og vötn. Fiskistofa veitir ýmsum umsagnir: Orkustofnun vegna leyfisveitinga, Skipulagsstofnun vegna mats á umhverfisáhrifum og sveitarfélögum vegna skipulagsmála þegar framkvæmdir geta haft áhrif á lífríki í ám og vötnum. Á árinu 2019 voru til umfjöllunar 80 slík erindi.


Eftirlit með veiðum á laxfiskum

Fiskistofa gefur út skipunar- og erindisbréf til veiðivarða sem veiðifélög ráða til sín, en með þeim fá veiðiverðirnir m.a. heimild til að leggja hald á ólögleg veiðitæki og afla. Alls voru 34 slík bréf gefin út á árinu. Mörg veiðifélög sækja ekki um skipunar- og erindisbréf fyrir veiðiverði sína og því hafa þeir ekki heimildir sem gagnlegt væri að hafa í því starfi. Auk veiðivarða veiðifélaga réði Fiskistofa eftirlitsmann yfir sumarmánuðina, einkum til aðkanna netalagnir í sjó í samvinnu við almenna eftirlitsmenn Fiskistofu. Árið 2019 var slíku eftirliti sinnt eins og á liðnum árum og athuganir gerðar á því hvort reglurværu virtar vegna netalagna við strendur landsins og var dróni notaður í nokkur skipti við það eftirlitið. Einnig var eftirliti sinnt úr báti með ströndum Borgarfjarðar.Þá var eftirliti sinnt úr flugvélum, m.a. í samstarfi við Landhelgisgæsluna, en eftirlitsmaður Fiskistofu tók þáttí æfingaflugi um Hornstrandir og Jökulfirði. Í eftirliti Fiskistofu hefur komið fram að netum í sjó með ströndum landsins hefur fækkað mjög síðustu ár. Svo virðist sem áhugi á slíkum veiðum hafi farið dvínandi.


Fiskeldi og slysasleppingar

Lax- og silungsveiðisvið Fiskistofu hefur það hlutverk að bregðast við og stjórna veiðum ef slysaslepping verður úr fiskeldi. Með breytingu á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi hefur Fiskistofa einnig skyldur til að rannsaka að eigin frumkvæði ef grunur vaknar um að fiskar hafi sloppið úr eldi. Á árinu fjárfesti Fiskistofa í netabúnaði til að hafa til taks á starfstöðvum sínum fyrir það verkefni,til að geta brugðist við ef grunur vaknar um að eldis fiskar hafi sloppið. Árið 2019 bárust Fiskistofu tvær tilkynningar vegna mögulegra slysasleppinga. Tilkynning barst frá Arnalaxi hf. í janúar vegna hugsanlegrar slysasleppingar þegar gat (15×50 cm) kom á kví fyrirtækisins við Hringsdal á 20m dýpi. Gert var við gatið, viðbragðsáætlun fyrirtækisins virkjuð og net lögð umhverfis umrædda kví. Eftirlitsmaður Fiskistofu fór á vettvang og tók þátt í því þegar vitjað var um netin. Ekki veiddist lax í net og var veiðiaðgerðum hætt. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun reyndist orsök tjónsins vera galli í framleiðslu nótarpoka. Í ágúst barst tilkynning frá Arnarlaxi um mögulega slysasleppingu þegar gat (7×12 cm) fannst á sjókví fyrirtækisins í Tálknafirði. Viðbragðsáætlun var virkjuð og net lögð við kvínna. Ekki veiddist lax í netin og var veiðiaðgerðum hætt. Fyrir utan þessar tilkynningar var lítið um að grunur væri um að eldisfiskar veiddust í íslenskum veiðivötnum sumarið 2019. Nokkrir laxar veiddust í Mjólká sem höfðu útlitseinkenni eldisfiska og voru sýni af þeim send í erfðagreiningu.


Upplýsingar um starfsemi Fiskræktarsjóðs og úthlutanir úr honum

 

Frekari upplýsingar - Allur kaflinn  í prentvænni útgáfu

Fyrri kafli  -  Valmynd Ársskýrslu  -  Næsti kafli

Finna skip

Tungumál síðu
banner6
Þetta vefsvæði byggir á Eplica