Mannauður

Mannauður

Hinn 31. desember 2018 voru starfsmenn Fiskistofu 61 talsins í 60,1 stöðugildum á 6 starfsstöðvum um landið en eins og síðustu áramót voru 3 stöðugildi ómönnuð það er viðkomandi hafði ekki hafið störf eða ekki hafði enn verið gengið frá ráðningu. Starfsmannavelta Fiskistofu árið 2018 var 13,1% en starfsmannavelta er skilgreind sem hlutfall þeirra starfsmanna sem hætta störfum á viðkomandi ári af heildarfjölda starfsmanna í árslok.

Eftirtaldir fastráðnir starfsmenn létu af störfum á árinu:

Daníel Þorgeirsson, Jón Valgeir Guðmundsson, Jónína Hansen, Steingrímur Guðjónsson og Örn Sævar Hólm.


Starfsþróun og þekkingarmiðlun

Mikil auðlind felst í þeirri breiðu þekkingu og menntun sem starfsfólk Fiskistofu býr yfir en 49,2% starfsmanna Fiskistofu hafa fyrstu háskólagráðu eða frekari menntun. Stór hluti annarra starfsmanna hefur skipstjórnarmenntun, fiskiðnaðarmenntun, stúdentspróf eða iðnmenntun. Fiskistofa leggur m.a. áherslu á að starfsmenn þróist í starfi, að þekkingin sé eftir mætti fönguð í ferla og að starfsmenn miðli þekkingu sín á milli. Í því ljósi er unnið markvisst eftir starfsþróunarstefnu þar sem skýr vilji stofnunarinnar til virkrar þekkingarmiðlunar var settur fram og leiðir, ábyrgð og verklag endurskoðað.

Árið 2018 var fjölbreytt fræðsla í boði og unnið var út frá starfsþróunaráætlun. Innanhúss var m.a. boðið upp á eftirfarandi námskeið:

Haldið var áfram með grunn og framhaldsnámskeið í excel og að auki bætt við 4 skipta námskeiði um gagnasöfn SQL. Einnig var bætt við í kennslu á nýja skjalakerfið, Workpoint.

Framhald var á námskeiðsröðinni „starfsmaðurinn ég að gera gott betra“ þar sem hlutar 2 og 3 fóru fram.

Starfsmönnum var boðið upp á námskeið í Outlook sem ber heitið „Nýttu möguleikana“. Þar var um að ræða 2 námskeið, annarsvegar grunnnámskeið og hins vegar framhaldsnámskeið.

Undir lok ársins hófst 6 fyrirlestra röð í sjávarútvegsfræði þar sem m.a. var farið yfir umhverfi og nytjastofna, stjórnkerfi fiskveiða sem og skip og útgerðir.

Starfsmönnum á veiðieftirlitssviði var boðið upp á 12 kennslustundir í sjávarútvegstengdri ensku og fór hluti þeirra fram á haustönn 2018.

Haldin var sérstök vinnustofa fyrir stjórnendur um örsamtöl og endurgjöf. Jafnframt var mikil áhersla á árinu á nýja persónuverndarlöggjöf og innleiðing á 4 Dx og var nokkur fjöldi námskeiða, vinnudaga og funda vegna þess.


Annað stórt verkefni sem tók mikla athygli á árinu var gerð jafnlaunakerfis sem bíður vottunar fyrripart árs 2019.

Megnið af fyrirlestrum sem voru í boði árið 2018 voru teknir upp og því ávallt aðgengilegir þeim starfsmönnum sem ekki höfðu tök á að sitja fræðsluna og hefur það reynst vel.

Stefna Fiskistofu er að allir starfsmenn hittist tvisvar sinnum á ári á starfsdegi. Í ár var fyrri starfsdagurinn haldinn í Krakow í Póllandi en ferðin var frá 18–22 apríl. Fengin var fræðsla um fiskeldi á svæðinu. Silungabýlið sem var heimsótt er staðsett á svæði skammt frá Ojcowski þjóðgarðinum. Tilgangur með heimsókninni var að kynna sér stjórnsýslu málaflokksins í Póllandi, alla starfsemi á býlinu, framleiðsluferlið og einnig hvernig þeir fyrirbyggja eða lágmarka áhrif á umhverfið. Jafnframt var árshátíð starfsmanna haldin.

Seinni starfsdagur ársins var haldinn á Akureyri 20. september og hófst hann á fyrirlestri sem bar heitið „óstöðvandi ég“. Persónuverndarlögin voru kynnt, afrakstur stefnumótunarvinnu og staða mála og að lokum var kynning á niðurstöðum könnunarinnar „Stofnun ársins“ og í framhaldinu var hópavinna því tengdu. Að auki héldu stærri svið sér starfsdag.

Fræðslustundir héldu áfram göngu sinni en almennt er um jafningjafræðslu að ræða, þ.e. að starfsmenn fræða samstarfsmenn sína um margvísleg málefni, bæði vinnu og ekki vinnutengd, og voru 8 þannig stundir haldnar á árinu.

Margvísleg önnur símenntun átti sér stað s.s. sóttu starfsmenn ráðstefnur bæði hérlendis og erlendis, nýttu sér aðgang að fræðslu sem Fiskistofa hefur keypt s.s. að stjórnvísi. Fjöldi starfsmanna sóttu námskeið á sérsviði viðkomandi, en samþykkt voru um 50 slík námskeið á árinu. Einnig var ýmis önnur óformleg fræðsla á sviðs- og stjórnendafundum svo dæmi sé tekið.


Tölulegar upplýsingar varðandi mannauð og þróun

Meirihluti starfsmanna Fiskistofu eru karlar eða um 64% starfsmanna (sjá mynd 1). Í yfirstjórn Fiskistofu eru 4 karlar og 2 konur. Meðalaldur starfsmanna Fiskistofu er 50,5 ár og hefur lækkað aðeins á milli ára. Meðalaldur kvenna er um 6,2 árum lægri en karla. 55% starfsmanna eru 54 eða yngri og eru 9,7% starfsmanna Fiskistofu eru 65 ára eða eldri.

Meðalstarfsaldur starfsmanna Fiskistofu er 7,9 ár og hefur lækkað um tæpt ár á milli ára. 47,5% starfsmanna hafa starfað fjögur ár eða skemur hjá stofnuninni, tæp 28% starfsmanna í 10 til 19 ár og 9,8% starfsmanna lengur en 20 ár.


Hlutfall veikindafjarvista starfsmanna að vinnudögum er 4,3% en sé leiðrétt fyrir langtímaveikindum þá er hlutfallið 2,9%.

Starfsmönnum og stöðugildum hefur fækkað mikið síðasta áratug eða hefur starfsmönum fækkað úr 80 í 61 (mynd 2). Gert er ráð fyrir að starfsmannafjöldi muni aukast um 3 stöðugildi skv. gildandi rekstraráætlun en viss óvissa er þó vegna fjárframlaga til lengri tíma. Ríkisendurskoðun gerði úttekt á hluta af starfssemi Fiskistofu á árinu þar sem dregin var fram þessi mikla fækkun en stjórnvöld hafa ekki enn tekið ákvörðun um hvort fjölga eigi starfsmönnum en slíkt krefst aukinna framlaga til Fiskistofu. 

Frekari upplýsingar - Allur kaflinn  í prentvænni útgáfu

Fyrri kafli  -  Valmynd Ársskýrslu  -  Næsti kafli

 

 


Finna skip

Tungumál síðu
banner6
Þetta vefsvæði byggir á Eplica