Mannauður

Mannauður

Hinn 31. desember 2019 voru starfsmenn Fiskistofu 63 talsins í 62,8 stöðugildum á 6 starfsstöðvum um landið en eins og síðustu áramót voru 2 stöðugildi ómönnuð. En illa hefur gengið að ráða í störf eftirlitsmann á Höfn í Hornarfirði. Starfsmannavelta Fiskistofu árið 2019 var 12% en starfsmannavelta er skilgreind sem hlutfall þeirra starfsmanna sem hætta störfum á viðkomandi ári af heildarfjölda starfsmanna í árslok.

Eftirtaldir fastráðnir starfsmenn létu af störfum á árinu: Ólafur Vilhjálmsson, Rúnar Birgisson, Sigurbjörg Guðmundsdóttir, Steinlaug Anna Þorsteinsdóttir, Valdís Ásgeirsdóttir og Ölver Arnarson.


Starfsþróun og þekkingarmiðlun

Þekking, reynsla og menntun starfsmanna er ein af helstu auðlindum Fiskistofu. Hlutfall starfsmanna sem hafa fyrstu háskólamenntun eða frekari menntun er 54,5%. Aðrir starfsmenn hafa einnig víðtæka þekkingu og menntun til dæmis skipstjórnarmenntun, fiskiðnaðar menntun, stúdentspróf eða iðnmenntun.

Fiskistofa leggur mikla áherslu á starfsþróun og er það  jákvætt hvað starfsmenn eru virkir við að sækja sér símenntun á ýmsum námskeiðum og ráðstefnum. Fiskistofa hefur einnig stuðlað að því að starfsmenn deili þekkingu sinni og reynslu með öðrum starfsmönnum. Í því ljósi er unnið markvisst eftir starfsþróunarstefnu þar sem fram kemur skýr vilji stofnunarinnar til virkrar þekkingarmiðlunar og símenntunar. Samþykkt voru 45 námskeið og kostaðar ráðstefnur á sérsviði viðkomandi starfsmanns, t.d. á vegum Stjórnvísi, Endurmenntunar HÍ, Staðlaráðs og annarra aðila. Starfsmenn sóttu einnig ráðstefnur bæði hérlendis og erlendis. Ennfremur var ýmis önnur óformleg fræðsla á sviðs- og stjórnendafundum svo fátt eitt sé nefnt.

Sem dæmi um fræðslu sem var í boði á árinu 2019 má nefna að innanhúss var m.a. boðið upp á grunn- og framhaldsnámskeið í excel, námskeiði um gagnasöfn SQL og gæðakerfii CCQ. Fyrirlestraröðin í sjávarútvegsfræði hélt áfram á árinu þar sem m.a. var farið yfir umhverfi og nytjastofna, stjórnkerfi fiskveiða sem og skip og útgerðir. Haldin var sérstök vinnustofa fyrir stjórn -endur um fjölmiðla þar sem farið var yfir framkomu í fjölmiðlum, samfélagsmiðla, krísur og eðli þeirra og þróun. Jóhann Ingi sálfræðingur kom og var með fyrir lesturs um Skyndihjálp í samskiptum. Þar sem tekin voru fyrir þau lykilatriði sem gera fólki kleift að ná hámarksárangri í samskiptum. Boðið var uppá fræðslu sem bar heitið „Mögnum möguleikana“. Sigríður Ólafsdóttir frá Mögnum fór yfir ýmsa þætti er snúa að því að taka ábyrgð á eigin lífi, hugarfari, viðhorfi, styrkleikum, gildi, markmiði og lífshjólinu. Stærsti hluti þeirra fyrir lestra sem í boði voru árið 2019 voru teknir upp og því ávallt aðgengilegir þeim starfsmönnum sem ekki höfðu tök á að sitja fræðsluna og hefur það reynst vel.

Fræðslustundir héldu áfram göngu sinni en almennt er um jafningja fræðslu að ræða, þ.e. að starfsmenn fræða samstarfsmenn sína um margvísleg málefni, bæði vinnu og ekki vinnutengd, og voru 5 þannig stundir haldnar á árinu.

Líkt og síðustu ár sóttu margir af starfsmönnum Fiskistofu Sjávarútvegsráðstefnuna sem haldin var í nóvember. Tveir starfsmenn Fiskistofu voru í undirbúningsnefnd og tóku þátt í málstofu þar sem fjallað var um rafrænteftirlit og myndavélaeftirlit. Annar starfsmaðurinn var með erindi og hinn var fundarstjóri.

Starfsmenn Fiskistofu hittust tvisvar sinnum á árinu á starfsdegi. Fyrri starfsdagurinn var haldinn á Akureyri 13. mars. Dagurinn hófst með erindi frá Pálmari Ragnarssyni um jákvæð samskipti. Að því loknu var farið yfir stefnu Fiskistofu og 4DX, stefnumótun í upplýsingatækni og í kjölfarið stuttar kynningar frá sviðunum á þeim WIG verkefnum sem voru í gangi. Þá var einnig kynning á jafnlaunakerfi Fiskistofu. Seinni hlutinn hófst með erindi frá Jafnréttisstofu sem bar heitið „Af hverju eru jafnréttismál karlamál“ Í framhaldinu var hópavinna því tengdu. Að þeirri vinnu lokinni fengu starfsmenn fræðslu frá upplýsingatæknisviði um öryggisógnanir. Deginum lauk svo með frásögn tveggja starfsmanna um þróunarsamvinnu og ferðum til Bangladesh og Víetnam.

Seinni starfsdagur ársins var haldinn í Reykjavík 6. nóvember. Anna Steinsen frá Kvan hóf daginn með hugleiðingu um ábyrgð og samskipti. Veiðieftirlitið var með tvö erindi. Annars vegar var kynning á Plokfisk, sem er verkefni styrkt af Norræna Ráðherraráðinu sem hefur það markmið að styrkja norræna og alþjóðlega samvinnu milli viðeigandi stofnana til þess að koma í veg fyrir og berjast gegn fiskveiðiafbrotum. Einng var frásögn af vinnuskiptaferð veiðieftirlitsmanns Fiskistofu til Noregs. Upplýsingatæknisvið var einnig með erindi þar sem þau fóru yfir helstu verkefni sem voru í gangi. Seinnipartinn komu Ragnheiður og Elín frá Forvörnum með fyrirbyggjandi fyrirlestur um streitu og samspil hennar og samskipta.

Veiðieftirlitssvið hefur haldið sér starfsdaga með teymisþróunarvinnustofu til viðbótar við reglulega starfsdaga Fiskistofu, þar sem ýmis fræðsla fer fram. M.a. fræðslu frá sjúkraþjálfara um axlarstyrkingu, fræðslu um veiðarfæri þar sem heimsótt voru tvö fyrirtæki sem framleiða veiðarfæri. Auk þess luku starfsmenn veiðieftirlitssviðs seinnihluta náms í sjávarútvegstengdri ensku sem hófst á haustönn 2018.


Tölulegar upplýsingar varðandi mannauð og þróun

Tveir þriðju hluti starfsmanna Fiskistofu eru karlar eða um 66,7% starfsmanna (sjá mynd 1). Kynjahallinn skýrist af fullu með störfum eftirlitsmanna en í hópi 22 eftirlitsmanna eru einungis tvær konur. Í yfirstjórn Fiskistofu eru 4 karlar og 2 konur. Meðalaldur starfsmanna Fiskistofu er 50,8 ár og hefur hækkað lítillega á milli ára. Meðalaldur kvenna er um 5 árum lægri en karla. Snemma árs hlaut Fiskistofa jafnlaunavottun án athugasemda og gildir vottunin frá 2019–2022.


Hlutfall veikindafjarvista starfsmanna að vinnudögum er 3,14% en sé leiðrétt fyrir langtímaveikindum þá er hlutfallið 2,94%.

Starfsmönnum og stöðugildum hefur fækkað mikið síðasta áratug eða hefur starfsmönum fækkað úr 80 í 63(mynd 2). Gert er ráð fyrir að starfsmannafjöldi muni aukast um 2 stöðugildi skv. gildandi rekstraráætlun en viss óvissa er þó vegna fjárframlaga til lengri tíma. Ríkisendurskoðun gerði úttekt á hluta af starfssemi Fiskistofu árið 2019 þar sem dregin var fram þessi mikla fækkun en stjórnvöld hafa ekki enn tekið ákvörðun um hvort fjölga eigi starfsmönnum en slíkt krefst aukinna framlaga til Fiskistofu.


54% starfsmanna eru 54 ára eða yngri og eru 11,1% starfsmanna Fiskistofu 65 ára eða eldri.

Meðalstarfsaldur starfsmanna Fiskistofu er 7,7 ár og er svipaður á milli ára. 55,4% starfsmanna hafa starfað fjögur ár eða skemur hjá stofnuninni, tæp 24,6% starfsmanna í10 til 19 ár og 10,7% starfsmanna lengur en 20 ár.


 

Frekari upplýsingar - Allur kaflinn  í prentvænni útgáfu

Fyrri kafli  -  Valmynd Ársskýrslu  -  Næsti kafli

 

 


Finna skip

Tungumál síðu
banner3
Þetta vefsvæði byggir á Eplica