Upplýsingagjöf og samstarf

Upplýsingagjöf og samstarf

Fiskistofa safnar gögnum um veiðar og vinnslu afla, og skráir upplýsingar um aflaheimildir og stöðu þeirra. Stofnunin tekur saman margvíslegar upplýsingar úr þessum gögnum og birtir þær meðal annars á vef Fiskistofu. Nefna má reglulega birtingu á aflatölum yfirstandandi fiskveiðiárs og ársyfirlit sem gefið er út í október og hefur að geyma samanteknar upplýsingar um undangengið fiskveiðiár.

 

Leitast er við að hafa heimasíðu Fiskistofu þannig að hægt sé að nálgast upplýsingar á sem aðgengilegastan hátt og lögð er áhersla á gagnvirkar síður þar sem notendur geta sótt upplýsingar eftir eigin höfði úr gagnagrunnum. Fiskistofa sérvinnur einnig upplýsingar eftir beiðni gegn gjaldi samkvæmt gjaldskrá.

 

Á  árinu var svarað 210 fyrirspurnum sem er heldur færri en á fyrra ári þegar þær voru 273. Um 64 þeirra vörðuðu veiðar, heimildir og afla. Um 26 snerust um vottun á sjálfbærni íslenkra jávarafurða. Þá afgreiddi Fiskistofa 64 fyrirspurnir frá erlendum innflutningsyfirvöldum um réttmæti vinnslu- og veiðivottorða sem Fiskistofa gefur út. Fiskistofa svarar öllum fyrispurnum sem berast stofnuninni og heimilt er að svara samkvæmt upplýsinga- og persónuverndarlögum.


 

Innlent samstarf 

Fiskistofa leggur áherslu á samstarf við aðrar stjórnsýslu stofnanir og hagsmunaaðila í sjávarútvegi til þess að rækja hlutverk sitt sem best. Slíkt samstarf getur bæði stuðlað að aukinni skilvirkni og hagræði með það að markmiði að bæta bæði upplýsingagjöf og þjónustu ásamt því að auðvelda samskipti. Reglulegt samráð er haft við tollayfirvöld, Matvælastofnun, Landhelgisgæslu, Hafrannsóknastofnun, Fjársýslu ríkisins, Hafnasamlagið, Skattinn og Samgöngustofu. Þá er Fiskistofa í reglulegum samskiptum og samstarfi um ýmis mál við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Landssamband smábátaeigenda. Síðast en ekki síst þá hélt Fiskistofa kynningu í samstarfi við SFS fyrir skipstjóra á upp sjávarveiðiskipum með það að markmiði að samræma vinnubrögð og gagnkvæman skilning á þeim reglum sem um veiðarnar gilda.


Fiskistofa tók eins og undanfarin ár þátt í kennslu í formi gestafyrirlestra, meðal annars í Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Háskóla Íslands. Einnig leggur Fiskistofa til kennara á löggildingarnámskeið fyrir vigtarmenn. Þá tekur Fiskistofa reglulega á móti gestum frá fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum og kynnir fyrir þeim starfsemina og fiskveiðistjórnun. Á árinu aðstoðaði Fiskistofa íslensk vottunarfyrirtæki á allmörgum fundum með erlendum úttektaraðilum við alþjóðlega vottun á sjálfbærni veiða og gæðum íslenskra sjávarafurða.


Samstarf á alþjóðavettvangi

Fiskistofa á fulltrúa í ýmsum samstarfsnefndum á vegum alþjóðlegra fiskveiðieftirlitsstofnana. Ferða dagar starfsmanna erlendis á vegum Fiskistofu 2019 voru 198 talsins en gistinætur voru 142. M.a. var farið á fundi hjá eftirfarandi alþjóðastofnunum: Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni (NEAFC), Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni (NAFO) og Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðinu (NAMMCO). Þá tóku fulltrúar Fiskistofu þátt í fundum sem vörðuðu fiskveiðieftirlit á alþjóðlegum hafsvæðum. Enn fremur var fundað með fulltrúum fiskveiðiþjóða um framþróun fjareftirlits- og tilkynningakerfis fiskiskipa á norðanverðu Atlantshafi. Þá fóru fram norræn starfsmannaskipti í veiðieftirliti þar sem íslenskir veiðieftirlitsmenn fóru til Noregs en grænlenskir eftirlitsmenn komu til Íslands. Markmiðið er að fræðast og deila þekkingu og nýjungum á milli þjóðanna.

 

Fiskistofa stóð fyrir fjölda kynninga á ýmsum þáttum í starfseminni og íslenskri fiskveiðistjórnun bæði fyrir innlenda og erlenda aðila. Fiskistofa hélt kynningar fyrir sendiherra Indlands, stjórnendahópa frá fiskistofu Bangladesh og norsku matvælastofnuninni, forystumenn smáríkja í Kyrrahafi í tenglsum við Arctic Circle og írska sérfræðinga í veiðieftirliti.Margvísleg fræðsla um starfsemi og hlutverk Fiskistofu fyrir háskólanema færist í vöxt. Þannig voru haldnir fræðslufundir fyrir nema við Háskólasetur Vestfjarða, nemendur í alþjóðlegu námskeiði um auðlindalögfræði sem og meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ. Til Fiskistofu komu enn fremur hópar frá bæði þýskum og breskum háskólum, doktorsnemar bæði innlendir og erlendir sem rannsaka fiskveiðistjórnun. Þá tók Fiskistofa þátt í Sjávarútvegsráðstefnunni með kynningu og einnig var fulltrúi Fiskistofu með erindi á alþjóðlegri ráðstefnu um fiskveiðistjórnun og eftirlit í Pétursborg í Rússlandi.

 

Áhugi hefur reynst þónokkur á nýjungum í stjórnun og rekstri hjá Fiskistofu. Þannig hefur Fiskistofa kynnt eftirfarandi efni fyrir háskólanemum og aðstoðað þá við lokaverkefni: Jafnlaunavottun, jafnlaunakerfi Fiskistofu fyrir mannauðs-, gæða- og fjármálastjóra og innleiðingu persónuverndarlaga hjá Fiskistofu. Þá hefur gæðastjóri Fiskistofu kynnt notkun CCQ kerfisins við gæðastjórnun fyrir öðrum stofnunum og ráðuneytum.

 

Fiskistofa hefur í tvö ár tekið þátt í verkefni utanríkisráðuneytisins þar sem þróunarsamvinna á sviði sjávarútvegs fer fram með því að ráðuneytið leggur fjármuni í sjávarútvegsverkefni sem Alþjóðabankinn stýrir í þróunarlöndum. Mikill áhugi og þörf hefur reynst fyrir aðstoð sérfræðinga á sviði fiskveiðistjórnunar. Á grundvelli þessa samstarfs sendi Fiskistofa sérfræðing til bæði Vietnam og Bangladesh til ráðgjafar um fiskveiðistjórnun á árinu.


Frekari upplýsingar - Allur kaflinn  í prentvænni útgáfu

 

Fyrri kafli  -  Valmynd Ársskýrslu  -  Næsti kafli

 


Finna skip

Tungumál síðu
banner5
Þetta vefsvæði byggir á Eplica