Upplýsingagjöf og samstarf

Upplýsingagjöf


Fiskistofa safnar gögnum um veiðar og vinnslu afla, og skráir upplýsingar um aflaheimildir og stöðu þeirra. Stofnunin tekur saman margvíslegar upplýsingar úr þessum gögnum og birtir þær meðal annars á vef Fiskistofu. Nefna má reglulega birtingu á aflatölum yfirstandandi fiskveiðiárs og ársyfirlit sem gefið er út í október og hefur að geyma samanteknar upplýsingar um undangengið fiskveiðiár. Leitast er við að hafa heimasíðu Fiskistofu þannig að hægt sé að nálgast upplýsingar á sem aðgengilegastan hátt og lögð er áhersla á að fjölga gagnvirkum síðum þar sem notendur geta sótt upplýsingar eftir eigin höfði úr gagnagrunnum. Fiskistofa sérvinnur einnig upplýsingar eftir beiðni gegn gjaldi samkvæmt gjaldskrá.

Á árinu var svarað 273 fyrirspurnum sem er heldur fleiri en á fyrra ári þegar þær voru 242. Um 130 þeirra vörðuðu veiðar, heimildir og afla. Um 20 snerust um vottun á sjálbærni íslenkra sjávarafurða. Þá afgreiddi Fiskistofa 78 fyrirspurnir frá erlendum innflutningsyfirvöldum um réttmæti vinnslu- og veiðivottorða sem Fiskistofa gefur út. Fiskistofa svarar öllum fyrispurnum sem berast stofnuninn og heimilt er að svara samkvæmt upplýsinga- og persónuverndarlögum.


Innlent samstarf

Fiskistofa leggur áherslu á samstarf við aðrar stjórnsýslustofnanir og hagsmunaaðila í sjávarútvegi til þess að rækja hlutverk sitt sem best. Slíkt samstarf getur bæði stuðlað að aukinni skilvirkni og hagræði með það að markmiði að bæta bæði upplýsingagjöf og þjónustu ásamt því að auðvelda samskipti. Samráð átti sér m.a. stað við tollayfirvöld, Matvælastofnun, Landhelgisgæslu, Hafrannsóknastofnun, Fjársýslu ríkisins, Hafnasamlagið og Samgöngustofu. Ennfremur má nefna samstarf við veiðigjaldsnefnd og ríkisskattstjóra vegna ákvarðana um veiðigjöld og breytinga í löggjöfinni um þau. Þá er Fiskistofa í reglulegum samskiptum og samstarfi um ýmis mál við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Landssamband smábátaeigenda.

 

Starfsmenn Fiskistofu tóku á árinu þátt í kennslu í formi gestafyrirlestra, meðal annars í Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Háskóla Íslands. Einnig leggur Fiskistofa til kennara á löggildingarnámskeið fyrir vigtarmenn. Meðal annars tók Fiskistofa þátt í viðburðinum Lýsu á Akureyri og kynnti þar gott aðgengi að víðtækum upplýsingum um sjávarútveg á vef Fiskistofu. Þá tekur Fiskistofa reglulega á móti gestum frá fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum og kynnir fyrir þeim starfsemina og fiskveiðistjórnun. Á árinu aðstoðaði Fiskistofa íslensk vottunarfyrirtæki á fjölmörgum fundum með erlendum úttektaraðilum við alþjóðlega vottun á sjálbærni veiða og gæðum íslenskra sjávarafurða.

 

Samstarf á alþjóðavettvangi

Fiskistofa á fulltrúa í ýmsum samstarfsnefndum á vegum fjölþjóðlegra fiskveiðieftirlitsstofnana. Ferðadagar starfsmanna erlendis á vegum Fiskistofu 2018 voru 241 talsins en gistinætur voru 194. M.a. var farið á fundi hjá eftirfarandi alþjóðastofnunum: Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni (NEAFC), Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni (NAFO) og Norður-Atlantshafs sjávarspendýraráðinu (NAMMCO). Þá tóku fulltrúar Fiskistofu þátt í fundum sem vörðuðu fiskveiðieftirlit á alþjóðlegumhafsvæðum. Ennfremur var fundað með fulltrúum fiskveiðiþjóða um framþróun fjareftirlits- og tilkynningakerfis fiskiskipa á norðanverðu Atlantshafi.

 

Fiskistofa stóð fyrir fjölda kynninga á starfsemi sinni og íslenskri fiskveiðistjórnun fyrir erlenda aðila sem heimsóttu landið. Nefna má að fundað var með fulltrúum grænlenskra stjórnvalda til að ræða framþróun í fiskveiðistjórnun og álagningu veiðigjalda. Einnig var sendiherra Filipseyja á Íslandi fræddur um íslenskan sjávarútveg og fiskveiðistjórnun. Þá var tekið á móti fræðimanni á sviði fiskveiðistjórnunar frá Nýja Sjálandi og einnig hópi fræðimanna og stjórnenda í Cornell háskóla í Bandaríkjunum. Sá háskóli vill útvíkka samstarf um jarðhitamál með íslenskum aðilum yfir í alþjóðlegt samstarf um kynningu og nýtingu á þekkingu Íslendinga á fiskveiðistjórnun. Fiskistofa tók þátt öðru sinni í kynningu tengda Arctic Circle fyrir aðila úr stjórnsýslu Kyrrahafseyja. Loks ber að geta að Fiskistofa hóf þátttöku í verkefni utanríkisráðuneytisins þar sem þróunarsam- vinna á sviði sjávarútvegs fer fram með því að ráðuneytið leggur fjármuni í sjávarútvegsverkefni sem Alþjóðabankinn stýrir í þróunarlöndum. Mikill áhugi og þörf reyndist fyrir aðstoð sérfræðinga á sviði fiskveiðistjórnunar og sendi Fiskistofa sérfræðing til bæði Vietnam og Bangladesh til ráðgjafar um fiskveiðistjórnun síðla árs á grundvelli þessa samstarfs. Fyrir liggur að framhald verður á þátttöku Fiskistofu í verkefnum á grundvelli þessa samstarfs Íslendinga og Alþjóðabankans. 

 

Frekari upplýsingar - Allur kaflinn  í prentvænni útgáfu

 

Fyrri kafli  -  Valmynd Ársskýrslu  -  Næsti kafli

 


Finna skip

Tungumál síðu
banner6
Þetta vefsvæði byggir á Eplica