Upplýsingatækni

Upplýsingatækni

Í heimi mikilla og hraðra breytinga er mikilvægt að sofna ekki á verðinum, sér í lagi ekki þegar um er að ræða upplýsingatækni. Þar getur verið snúið að veðja á réttan hest enda ekki alltaf ljóst hvaða tæknilausnir verða ráðandi í náinni framtíð.

Ljóst er að Fiskistofa glímir við mikla tækniskuld í upplýsingatæknimálum, sem er ekki óalgengt hjá ríkisstofnunum sem sæta niðurskurði og þurfa að eyða miklum tíma í að halda við eldri tölvukerfum í takt við breytingar á löggjöf sem oft á tíðum kalla á mikinn uppskurð á kerfum sem við það flækjast enn frekar.

Mikilvægt er að opinberar stofnanir dragist ekki afturúr í tæknimálum og að séu framsæknar í þróun upplýsingatæknilausna. Nýjar kröfur bæði hvað varðar öryggi upplýsinga og notendaviðmót kerfa kalla á nýjar aðferðir sem starfsfólk þarf að tileinka sér.

Upplýsingatæknisvið fór á árinu í stefnumótunarvinnu með ráðgjöfum frá Capacent og var sú vinna bæði skemmtileg og fræðandi. Niðurstaða þessarar vinnu var meðal annars sú að þörf væri á að breyta tækni- og þróunarumhverfi og fara að nota skýjalausnir í meiri mæli.

Þó svo að vitanlega taki tíma bæði að mennta fólk í nýrri tækni og endurhanna kerfi þá er ljóst að þessi fjárfesting mun skila sér í sveigjanlegri og öflugri tækniarkitektúr og gefa okkur aukinn slagkraft þegar kemur að þróun lausna í síbreytilegu rekstarumhverfi.

Mikilvægur þáttur í framþróun er að efla stafræna þjónustu. Nýir möguleikar svo sem pósthólf island.is og leyfisveitingagátt gera mögulegt að samræma þjónustu opinberra aðila og setja undir sama hatt, þjónustugátt Ísland.is.

Fiskistofa ætlar sér að taka fullan þátt í þessar þróun og hafa starfsmenn upplýsingatæknisviðs verið í samstarfi við verkefnastjórn Stafræns Íslands í því skyni að aðlaga kerfi Fiskistofu að þjónustugáttinni.

Stefnt er að því að á árinu 2019 munu kerfi Fiskistofu tengjast þjónustugáttinni og má reikna með að hluti af póstsendingum, sem hingað til hafa verið á bréfformi, færist yfir í stafrænar sendingar í pósthólf island.is

Ýmsar fleiri breytingar eru í farvatninu og munu líta dagsins ljós á árinu 2019.Frekari upplýsingar - Allur kaflinn  í prentvænni útgáfu

Fyrri kafli  -  Valmynd Ársskýrslu  -  Næsti kafli


Finna skip

Tungumál síðu
banner4
Þetta vefsvæði byggir á Eplica