Upplýsingatækni

Upplýsingatækni

Frá stofnun hefur Fiskistofa annast upplýsingatæknimál fyrir Hafrannsóknastofnun. Í upphafi fóru þeir starfsmenn sem sinnt höfðu þessum málum hjá Hafrannsóknastofnun yfir til Fiskistofu. Síðan hefur margt breyst og upplýsingatæknisviðið hefur eflst og starfsfólki fjölgað í takti við umfang verkefna og aukna áherslu á upplýsingatækni í rekstri stofnananna.

 

Um mitt ár ákvað Hafrannsóknastofnun að slíta þessu samstarfi. Í kjölfarið fluttust fimm starfsmenn upplýsingatæknisviðs Fiskistofu til Hafrannsóknastofnunnar.

 

Þar sem uppbygging upplýsingatækni stofnanna hefur þróast með þarfir beggja aðila í huga er flókið mál að aðgreina netkerfi og þar að auki eru gagnagrunnar að hluta sameiginlegir. Mikil vinna hefur því farið í þessa aðgreiningu. Þrátt fyrir þetta hefur náðst árangur á ýmsum sviðum.

 

Í byrjun árs var Office365 innleitt, en það er allsherjar fyrirtækjalausn frá Microsoft. Office365 býður upp á mikla möguleika í samvinnu sem hentar vel dreifðri stofnun eins og Fiskistofu. Ýmsir hópvinnumöguleikar nýtast vel við samstarf milli starfstöðva og minnka þörf á ferðalögum landshluta á milli.

 

Workplace – Facebook at Work var innleitt í september og er óhætt að segja að starfsfólk hafi tekið þessum nýja samfélagsmiðli vel. Reglulega berast nú fréttir og myndir frá öllum starfsstöðvum Fiskistofu sem og af vettvangi veiðieftirlitsmanna. Mikil stemning var kringum innleiðinguna sem tókst afar vel og gaf þessum miðli gott start og mikinn meðbyr meðal starfsfólks.

 

Á árinu var talsverð þróun í sérsmíðuðum hugbúnaði Fiskistofu. Helst ber að nefna nýtt nýtingarkerfi vinnsluskipa og millifærslukerfi. Millifærslukerfið gerir útgerðum kleift að millifæra veiðiheimildir sín á milli án beinnar aðkomu Fiskistofu. Þetta einfaldar mjög alla vinnu og dregur úr pappírssamskiptum.

 

Ýmsar áskoranir bíða starfsfólks upplýsingatæknisviðs á næstu misserum. Byggja þarf upp netkerfi að nýju og endurskipuleggja rekstrarumhverfi í samræmi við þarfir Fiskistofu. Ljóst er að mæta þarf fækkun á starfsfólki með einhverjum hætti, annað hvort með nýráðningum eða verktökum. Mikil þekking hefur tapast með starfsmönnum sem fluttust til Hafrannsóknastofnunnar og tíma tekur að vinna þá þekkingu upp.

 

Í breytingum liggja líka tækifæri og ljóst að þessar hræringar opna ýmsa möguleika á framþróun og upptöku nýrrar tækni. Mikilvægt er að vel takist að stýra þessum breytingum þannig að stofnunin standi sterkari eftir.

 

 


Frekari upplýsingar - Allur kaflinn  í prentvænni útgáfu

Fyrri kafli  -  Valmynd Ársskýrslu  -  Næsti kafli

Finna skip

Tungumál síðu
banner5
Þetta vefsvæði byggir á Eplica