Eftirlit

Eftirlit

Stór hluti af starfsemi Fiskistofu felst í eftirliti með nýtingu auðlinda hafsins. Þannig hefur stofnunin eftirlit með öllum skipum sem veiða í íslenskri lögsögu sem og veiðum íslenskra skipa sem veiða utan lögsögunnar. Þá hefur stofnunin eftirlit með löndun og vigtun sjávarafla í íslenskum höfnum hringinn í kringum landið. Verkefnið er ærið þar sem á síðasta ári voru tæpar 50 þúsund landanir á Íslandi og var landað magn rúmlega milljón tonn.

Fiskistofa hefur á undanförnum árum beitt nýstárlegum aðferðum við eftirlit sem miða að því að hagnýta þau gögn sem stofnunin safnar til þess að beina eftirliti þangað sem þörfin er mest fyrir það hverju sinni. Í ár er að auki verið að vinna eftir nýrri nálgun sem miðar að því að draga úr skaða (harms reduction) og hefur gefið góða raun erlendis. Hér er átt við að setja áherslu á eftirlit þar sem mest er í húfi varðandi fiskveiðiauðlindina t.d. stærri skip, stærri landanir, heimavigtun o.s.frv. Að því marki er unnið í samstarfi við aðrar eftirlitsstofnanir, bæði hér á landi og erlendis. Samtímis er leiðbeint meira vegna minniháttar brota til einföldunar, til að gæta betur meðalhófs og til að beina kröftum okkar þangað sem þörfin er mest.

Veiðieftirlitssvið Fiskistofu hefur unnið markvisst að því að birta upplýsingar um eftirlit, t.d. íshlutfall við endurvigtun hjá vigtunarleyfishafa þegar eftirlitsmenn eru viðstaddir vigtun og aflasamsetningu fiskiskipa þegar eftirlitsmaður er um borð í samanburði við aðrar veiðiferðir skipsins. Slíkar birtingar hafa forvarnar áhrif og auka gagnsæi í sjávarútvegi. Fiskistofa mun á árinu 2020 auka slíkar birtingar.


5.1 Eftirlit á sjó

Árið 2019 voru veiðieftirlitsmenn Fiskistofu 1129 daga á sjó við eftirlit með fiskiskipaflotanum.

Störf eftirlitsmanna um borð felast meðal annars í stærðarmælingum á fiski og tillögu gerð um lokanir veiðisvæða, kvörnun og kyngreiningu fiska, fylgjast með aflasamsetningu, veiðarfærum, hlutfalli smáfisks í afla og brottkasti. Þá fylgjast veiðieftirlitsmenn einnig með því að afladagbækur séu rétt útfylltar og séu í samræmi við veiðar og afla um borð.

Á árinu mældu eftirlitsmenn Fiskistofu alls 318.380 fiska og kvarnaðir voru 3.545 fiskar. Einnig mældu eftirlitsmenn Fiskistofu 8.913 skeldýr og skráðu 62 sjávarspendýr og fugla við störf sín um borð á árinu.

Áframhald var á samstarfsverkefni Fiskistofu og Hafró í svokölluðu brottkastverkefni. Gögnum er safnað til að rannsaka stærðartengt brottkast. Verkefnið felur í sér athugunog mat á brottkasti fisks undir tiltekinni lengd og með tilteknu veiðarfæri og er það unnið í samstarfi við Hafrannsóknastofnun sem gefur út skýrslu annað hvert ár þar sem tölfræðilegar niðurstöður verkefnisins eru birtar. Árið 2019 var brottkast mælt úr veiðarfærunum botntrolli og línu. Í brottkastsverkefninu eru þorskur ogýsa mæld úr lönduðum afla og afla upp úr sjó frá samaskipi í samliggjandi veiðiferð. Aðferðin byggist á því að brottkast sé lengdarháð og smáfiski sé hent en stærri fiskur hirtur. Mismunur þessara mælinga er síðan notaður til að meta stærðarháð brottkast. Árið 2019 mældu eftirlitsmenn Fiskistofu samtals 171.597 fiska í brottkastsverkefninu 113.684 þorska og 57.913 ýsur.Eftirlit á grunnslóð

Fiskistofa og Landhelgisgæsla Íslands sinntu sameiginlega fiskveiðieftirliti á grunnslóð eins og gert hefur verið undanfarin ár. Einnig var góð samvinna milli stofnanna við eftirlit þar sem notast var við loftför, nokkuð var um að myndað var brottkast frá opnum þilfarsbátum.

Farið var í sameiginlega leiðangra með varðskipunumTý og Þór. Með Tý í byrjun júlí farið frá Reykjavík og verið við eftirlit frá Snæfellsnesi norður á Hala, fóru eftirlitsmenn af á Ísafirði. Með Þór var farið frá Reykjavík og austur um, var eftirlit á miðunum fyrir sunnan land, útaf Austfjörðum og miðum og innan fjarða fyrir norðurlandi. Fóru eftirlitsmenn af á Skagaströnd í Húnaflóa.

Tilgangur ferðanna var að fara um borð í fiskiskip á grunnslóð með það að markmiði að kanna veiðileyfi,afla, afladagbók, aflasamsetningu, veiðarfæri, aflameðferð og annað sem tilheyrir veiðieftirliti. Einnig var leitað eftir lax og silungsnetum í sjó.

Í þessum leiðöngrum var farið um borð í 88 báta, 63 voru á handfæraveiðum, 8 á dragnót, 7 á botnvörpu, 6 á línuveiðum, 2 á þorskfiskanetum og 2 á sjóstöng. Ávallt er skoðað afladagbók, 19 athugasemdir og leiðbeiningar voru gerðar á vettvangi vegna afladagbókar, 2 brotaskýrslur voru gerðar vegna afladagbókar. Ekki kom til skyndilokunar vegna smáfisks í afla.


Uppsjávarfiskur

Í töflu 5.2 má sjá fjölda landana íslenskra og erlendra veiðiskipa á uppsjávarfiski í íslenskum höfnum og við veru eftirlitsmanna við þær, þegar eingöngu voru skoðaðar landanir á flotvörpu og nót þar sem heildarmagn löndunar náði 5 tonnum eða meira. Á árinu voru landanir íslenskra veiðiskipa á makríl, norsk-íslenskri síld, íslenskri sumargotssíld, loðnu og kolmunna 459 talsins og var eftirliti sinnt við 90 landanir. Á árinu voru 47 landanir erlendra veiðiskipa á uppsjávarafla og var eftirliti sinnt við 13 landanir. Á tímabilinu voru eftirlitsmenn Fiskistofu 183 daga um borð í veiðiskipum er stunduðu uppsjávarveiðar.
Grásleppa 

Útgefin leyfi til veiða á grásleppu voru 250 talsins. Eftirlit með grásleppuveiðum var hefðbundið þetta árið. Haft var eftirlit með að netalengd væri rétt, merkingar veiðarfæra í lagi og skráning í afladagbók væri skv. ákvæðum reglugerðar. Mikil áhersla var á að sjávarspendýr og fuglar væru rétt skráðir og er þá verið að horfa til vottunar og ábyrgra fiskveiða. Eftirlitsmenn Fiskistofu fóru í 36 veiðiferðir með grásleppubátum. Gerðar voru 7 skýrslur vegna brota á reglum um hrognkelsaveiðar. 


Vinnsluskip 

Sú þróun sem verið hefur undanfarin ár að skipum sem vinna afla um borð fækki hélt áfram árið 2019 alls voru 17 skip sem unnu afla eða hluta hans um borð á einhverjum tímapunkti ársins, en þau voru 19 árið 2018. Botnfiskur var flakaður um borð í 12 skipum sem reyndar er fjölgun um eitt skip frá fyrra ári, heilfrystur, haus- og/eða sporðskorinn um borð í 3 skipum, uppsjávarafli var unnin um borð í 1 skipi og 1 skip sauð rækju. Heildar fjöldi landanna á afurðum vinnsluskipa árið 2019 voru 230.

Eftirlit Fiskistofu með vinnsluskipum felst auk þess að fara í róður með skipum að rýna nýtingarskýrslur, telja nýtngarsýni við löndun og bera saman við skráningu í gagnasafn skipsins og að þíða upp vinnslu- og nýtingarsýni og kanna hvort nýtingarsýni sem ákvarða kvóta veiðiferðarinnar lýsi í raun vinnsluháttum um borð. Einnig er reiknað út miðað við uppgefna vinnslunýtingu uppsjávarskipanna hversu mikið á að vera af hrati í tönkum skipsins þegar búið er að landa og vigta frosnar afurðir.

Af 27 úttektum við löndun vinnsluskipa sem eftirlitsmennFiskistofu framkvæmdu árið 2019 voru 21 sinnum smávægileg eða enginn athugasemd gerð, í 5 skipti voru ein eða fleiri afurð felld á grunnstuðul þar sem mat Fiskistofu var að nýtingarsýni væru ekki að gefa rétta mynd af raunverulegri nýtingu um borð. Einu sinni var flak í afskurði og var það mál sent til lögfræðilegrar meðferðar. Við rýni á gagnasafni vinnsluskipa var afurð þrisvar sinnum felld á grunnstuðul þar sem ekki náðist að taka nægilegan fjölda nýtingarsýna miðað við afla upp úr sjó.

Árið 2019 voru gerðar 3 brotaskýrslur vegna skipa sem vinna afla um borð til samanburðar við árið 2018 en þá voru gerðar 26 brotaskýrslur, 2018 var það oftast vegna þess að nýtingarsýni skiluðu sér ekki við löndun. Í þeim 27 úttektum sem Fiskistofa gerði árið 2019 vantaði einungis einu sinni 1 nýtingarsýni sem skráð var í gagnasafn skipanna, verður það að teljast sérlega jákvæður viðsnúningur. Í samstarfssamningi Fiskistofu og Matvælastofnunar er m.a. kveðið á um að veiðieftirlitssvið Fiskistofu annist stöðumat í vinnslu og frystiskipum. Þá skoða eftirlitsmenn Fiskistofu hvort og hvernig brugðist hefur verið við athugasemdum eftirlitsmanna Matvælastofnunar á vinnsluumhverfi um borð í vinnsluskipum. Matvælastofnun voru sendar upplýsingar vegna 16 veiðiferða. Hjá Fiskistofu störfuðu þrír eftirlitsmenn sem sérhæfðir eru í eftirliti með skipum sem vinna afla um borð.


Skyndilokanir

Skyndilokunum er beitt til að koma í veg fyrir skaðlegar veiðar á smáfiski. Skyndilokanir voru 50 á árinu. Flestar lokanir urðu þegar þorskur mældist undir viðmiðunarmörkum eða í 48 skipti þegar þorskur átti í hlut, 2 skipti vegna þorsks og ýsu saman í báðum tegundum. Flestar voru lokanir á línuveiðar, en þær voru 25 talsins. Engin lokun var vegna ýsu þar sem hún mældist undir viðmiðunarmörkum, en 1 lokun varð árið 2018 vegna ýsu. Lokanir vegna rækju engin á móti 2 árið 2018.

1. nóvember 2019 var viðmiðunarmörkum vegna lokana veiðisvæða breytt samkvæmt tillögu Hafrannsóknastofnunar. Viðmiðunarmörk fyrir þorsk, ýsu og ufsa verði 50% af fjölda, í stað 25% í þorski og 30% í ýsu og ufsa, en lengdarmörk verði óbreytt (55 cm í þorski og ufsa og 45 cm í ýsu).Hvalveiðar

Hrefnuveiðar voru ekki umfangsmiklar árið 2018 og árið 2019 voru engar hrefnuveiðar stundaðar við Ísland. Engar langreyðaveiðar voru stundaðar 2019. Í fyrsta sinn frá árinu 2012 voru því engar hvalveiðar við Ísland.5.2 Eftirlit í landi - Vigtun sjávarafla

Stærsta eirlitsverkefni Fiskistofu í landi er eftirlit með vigtun og skráningu sjávarafla. Í því felst eftirlit með vigtun á hafnarvog sem og vigtun hjá heima- og endurvigtunarleyfishöfum.

Endurvigtunarleyfi eru leyfi til þess að afli sem þegar hefur verið veginn á hafnarvog sé veginn íslaus hjá leyfishafa til aflaskráningar. Við lok árs voru í gildi 88 endurvigtunarleyfi.

Heimavigtunarleyfi voru 15 við lok árs en þau leyfi veita heimild til þess að vigta afla án þess að hann sé veginn á hafnarvog. Strangari skilyrði gilda um veitingu slíkra leyfa, t.a.m. rík krafa um innra eftirlit leyfishafa sem og skyldur hafnaryfirvalda í viðkomandi höfn að uppfylla eftirlitsskyldur gagnvart leyfishöfum. Leyfi til heimavigtunar eru einungis gefin út til vigtunar á uppsjávarafla.

Þá var í gildi 1 vigtunarleyfi sjálfstæðra aðila sem vigta afla í umboði og á ábyrgð hafnaryfirvalda. Slíkir aðilar vigta nær eingöngu afla frystiskipa.

Á síðasta ári fylgdust eftirlitsmenn Fiskistofu með vigtun í 121 skipti, 93 skipti með endurvigtun og 28 skipti með heimavigtun.

Á vefsíðu Fiskistofu má finna upplýsingar um landanir allra skipa sem stunda veiðar í íslenskri lögsögu. Að auki má þar sjá upplýsingar um niðurstöður endurvigtunar hjá leyfishöfum úr einstaka löndun. Slíkt gegnsæi er ein grunnstoð í fiskveiðistjórnun Íslendinga og er undirstaða árangurs og trausts í starfsemi Fiskistofu.

Á tveggja mánaða fresti birtir Fiskistofa á vef sínum niðurstöður vigtunar hjá endurvigtunarleyfishöfum þegar eftirlitsmenn höfðu eftirlit með vigtun í samanburði við aðra vigtun hjá leyfishafa á tveggja mánaða tímabili. Þá er reiknað vegið meðalíshlutfall hjá vigtunarleyfishafi yfir tímabilið, þ.e. íshlutfall að meðaltali að teknu tilliti til magns hverrar löndunar. Fiskistofa mun á næsta ári halda áfram að birta þessar upplýsingar og skoða jafnframt frekari möguleika á birtingu greininga úr gögnum stofnunarinnar, t.a.m. aflasamsetningu o.fl.

Fiskistofa hefur heimild skv. lögum um umgengni um nytjastofna sjávar til þess að fylgjast með allri vigtun vigtunarleyfishafa í allt að sex vikur ef í ljós kemur við eftirlit Fiskistofu veruleg frávik á íshlutfalli í afla skips í samanburði við fyrri landanir. Skal þá vigtunarleyfishafi greiða allan kostnað eftirlitsins. Á síðasta ári beitti Fiskistofa úrræðinu í þrjú skipti gagnvart þremur endurvigtunarleyfishöfum.


Strandveiðar

Alls voru 629 bátar með leyfi til strandveiða. Í samanburðimá nefna að 558 bátar voru með slíkt leyfi árið áundan 2018 því er um fjölgun að ræða milli ára. Leyfi til strandveiða eru bundin skilyrðum sem m.a. lúta að leyfilegum heildarafla á dag og tímalengd veiðiferðar. Fiskistofa hefur eftirlit með því að þessi skilyrði séu virt og fer það einkum fram með rafrænum hætti. Nýtt ákvæði í reglugerð um strandveiðar 2018 um heimild til að setja landaðan ufsa í VS-afla en sumarið 2019 var landað 514 tonnum af ufsa í Verkefnasjóðinn. Samkvæmt samstarfssamningi við Matvælastofnun hafa veiðieftirlitsmenn hitastigs mælt afla einkum yfir sumarmánuðina og eru allar mælingar sendar til Matvælastofnunar til frekari úrvinnslu.

Afladagbækur

Eftirlitsmenn Fiskistofu skoðuðu 1341 afladagbækur um borð í veiðiskipum á árinu. Við skoðun á vettvangi veita eftirlitsmenn leiðbeiningar við þau atriði sem betur mega fara en skrifa brotaskýrslur vegna veigameiri vanskráninga. Einnig leiðbeina eftirlitsmenn Fiskistofu skipstjórnarmönnum markvisst um þá skyldu þeirra að skrá öll þau sjávarspendýr og þá fugla sem koma í veiðarfæri. Send voru 530 áminningarbréf þar sem skipstjórar og útgerðaraðilar voru formlega áminntir vegna vanskila á afladagbókum. Þá voru 120 skip svipt veiðileyfi vegna vanskila á upplýsingum úr afladagbókum. Í upphafi árs hófst vinna við að hanna snjallsímaforrit fyrir skráningu á áætluðum afla og er því ætlað að leysa pappírsafladagbókina af. Forritið hefur verið í prófunum undanfarna mánuði. Verið er að sníða af því vankanta og villur sem hafa komið fram við prófanir. Stefnt er að því að forritið komist í almenna notkun vorið 2020.


Hafnríkiseftirlit

Fiskistofa ber ábyrgð á að framfylgja hafnríkiseftirliti bæði á vettvangi Norðvestur Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar (NAFO) og Norðaustur Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Tilgangur hafnríkiseftirlitsins er að koma í veg fyrir ólöglegar veiðar á Norður Atlantshafi. Ákvæði reglna um hafnríkiseftlit á við um komur erlendra skipa í samþykktar hafnir samningsaðila, meðafla um borð sem veiddur hefur verið á NEAFC eða NAFO veiðisvæðum og hefur ekki áður verið landað eða umskipað í höfn. Fiskistofa hefur skuldbundið sig til að sinna eftirliti í að lágmarki 15% tilfella með frosnum afurðum þegar um er að ræða löndun/umskipun erlendra skipa á Íslandi sem koma af veiðum á NAFO veiðisvæðinu en 7,5% landana með frosnum afurðum og 5% landana fersks afla af NEAFC-veiðisvæðinu.

Á árinu 2019 voru 8 hafnkomur með afla af NAFO svæðinu en einungis 5 landanir og er það aukning frá árinu 2018 þegar 3 landanir voru leyfðar. Á árinu varfullt eftirlit viðhaft í einni löndun af þessum 5.

Hafnkomur skipa af NEAFC svæðinu voru 169 en heimilaðar landanir erlendra skipa með afla af NEAFC veiðisvæðinu voru 141 er það rúmlega 50% samdrátturá milli ára sem skýrist af loðnubresti. Fullt eftyirlit var við12 landanir.

Eftirlitið felur m.a. í sér að fylgst er með löndun frá upphafi til enda, gerður er samanburður á magni og tegundum sem tilkynnt hefur verið um af viðkomandi skipi og lönduðum afla. Eftirlitsmenn fylgja eftir ákvæðum reglna um hafnríkiseftirlit. Brot á ákvæðum reglna um hafnríkiseftirlit eru t.d. ófullnægjandi merkingar á frystum afla, landanir án samþykkis hafnríkisins og misræmi á milli áætlaðs afla og landaðs afla. Fjöldi brota á árinu 2019 sem tilkynntur var til NEAFC skrifstofunnar og fánaríkja þeirra skipa sem áttu í hlut var 4 brot í heildina,3 vegna ófullnægjandi merkinga á frystum afla og eitt vegna misræmis á áætluðum afla og lönduðum afla.Frekari upplýsingar - Allur kaflinn  í prentvænni útgáfu
Finna skip

Tungumál síðu
banner5
Þetta vefsvæði byggir á Eplica