Afli í deilistofnum í nóvember 2016
Fiskistofa hefur tekið saman yfirlit yfir afla fyrstu níu mánuði ársins í norsk-íslenskri síld, makríl og kolmunna. Það sem af er ári er afli í íslenskra skipa í þessum deilistofnum minni en á sama tíma í fyrra í kolmunna en meiri í makríl og norsk-íslenskri síld.
Síldarafli nokkuð meiri en á síðasta ári
Afli íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum í nóvember var 1.012 tonn. Í reynd er þetta aðeins tvær landanir, hjá Huginn VE-55 sem landaði aflanum þann 1. nóvember sl. alls 478 tonnum og Aðalsteinn Jónsson landaði 534 tonn.
Heildarafli íslenskra skipa á fyrstu ellefu mánuðum ársins er nokkuð meiri en á síðasta ári. Íslensku skipin höfðu landað 47.9 þúsund tonn á yfirstandandi vertíð miðað við 42,6 þúsund tonn á sama tíma í fyrra. Þar af hafa íslensku skipin fengið 46,6 þúsund tonn úr íslenskri lögsögu eða 99,8% af afla úr norsk-íslenska síldarstofninum.
Aflahæsta skipið á vertíðinni er Börkur NK-122 með 5.284 tonn og Beitir NK-123 með 4.885 tonn.
Vertíðinni lokið í kolmunna
Í
nýliðnum mánuði veiddu íslensk skip aðeins 137 tonn af kolmunna sem komu sem
meðafli við síldveiðar.
Það sem af er ári hafa íslensk skip veitt 164,3 þúsund tonn af kolmunna. Á sama tíma í fyrra var aflinn nokkuð meiri eða 188 þúsund tonn. Mestur afli á yfirstandandi vertíð var veiddur úr lögsögu Færeyja eða alls 154,6 þúsund tonn og úr íslenskri lögsögu var aflað 8 þúsund tonn.
Aflahæsta skipið í kolmunna á ofangreindu tímabili er Beitir NK-123 með 19,3 þúsund tonn og Börkur NK-122 með 19,2 þúsund tonn.
Litlu meiri makrílafli en á síðasta ári
Makrílvertíð lauk fyrir nokkru eða undir lok septembermánaðar. Enginn makrílafli barst í veiðarfæri íslenskra skipa í nóvember mánuði en í október komu 1.341 tonn sem meðafli við síldveiðar austur af landinu.
Heildarafli íslenskra skipa á vertíðinni er 172,2 þúsund tonn. Þetta er 1,7% meiri afli en á vertíðinni 2015 þegar hann var 169,3 þúsund tonn.
Íslensk skip lönduðu alls 152,6 þúsund tonn eða 89% aflans úr íslenskri lögsögu en 11,4 þúsund tonn úr alþjóðlegu hafsvæði og 6,8 þúsund tonn úr grænlenskri lögsögu.
Aflahæsta skipið á makrílveiðunum á vertíðinni er Venus NS-150 með 11,6 þúsund tonn. Næst kemur Víkingur AK-100 með 9,6 þúsund tonn og Vilhelm Þorsteinsson EA-11 með 19 þúsund tonn.