Fréttir

Skýrsla um aflífunartíma hvala 

19.3.2015

Sumarið 2014 störfuðu tveir norskir dýralæknar við mælingar á aflífunartíma í hrefnu- og langreyðarveiðum við Ísland á vegum Fiskistofu. Dýralæknarnir hafa áratugareynslu af slíkum mælingum úr hrefnuveiðum Norðmanna. Vegna sérþekkingar sinnar voru þeir valdir til að sinna þessum mælingum í hvalveiðum við Ísland.

Í langreyðarveiðum var aflífunartími mældur fyrir 50 langreyðar. Niðurstaða mælinga var að 42 langreyðar (84%) drápust samstundis við það að skutull hæfði dýrin en það er ívið hærra hlutfall en Norðmenn hafa náð í hrefnuveiðum sínum. Átta langreyðar (16%) drápust ekki samstundis og voru skotnar aftur. Miðgildi fyrir aflífunartíma þeirra sem ekki drápust samstundis var 8 mínútur.

Vegna óhagstæðra veðurskilyrða lágu hrefnuveiðar að mestu niðri þann tíma sem ætlaður var til mælinga á aflífunartíma í hrefnuveiðum. Aðeins tókst að gera eina mælingu og því fengust ekki nægilegar upplýsingar til að leggja mat á aflífunartíma fyrir hrefnu. Ráðgerir Fiskistofa að ráða sömu sérfræðinga til þess að gera mælingar á aflífunartíma hrefnu á næsta hrefnuveiðitímabili.

Ráðgert er að niðurstöður mælinganna verði kynntar á fundi sérfræðinga um aflífun hvala sem haldinn verður á vegum NAMMCO (The North Atlantic Marine Mammal Commission) í nóvember á þessu ári. Þá verða niðurstöðurnar bornar saman við sambærilegar mælingar fyrir aðrar hvalategundir og árangur metinn fyrir þær veiðiaðferðir sem notaðar eru.

Skýrsla Dr. Egil Ole Øen um aflífunartíma í langreyðarveiðum við Ísland

Til baka Senda grein

Finna skip

Tungumál síðu
banner4
Þetta vefsvæði byggir á Eplica