Fréttir

Aflahlutdeild stærstu útgerðanna

25.9.2015

Fiskistofa hefur eftirlit með því að yfirráð einstakra aðila yfir aflahlutdeildum fari ekki umfram þau mörk sem lög kveða á um. Í eftirfarandi töflum kemur fram staða aflaheimilda þeirra 100 útgerða sem ráða yfir mestum aflahlutdeildum í upphafi nýs fiskveiðiárs eftir úthlutun á aflaheimildum. Sambærilegar upplýsingar koma einnig fram um þær 50 útgerðir sem ráða yfir mestum krókaaflahlutdeildum.

Útreikningur til þorskígilda miðast við allar tegundir aðrar en þær sem alfarið veiðast utan íslenskrar lögsögu en eru þó kvótabundnar, þ.e. þorskur í Barentshafi og rækja á Flæmingjagrunni eru ekki talin með.

Aflahlutdeild 1. september 2015 – 100 stærstu

Krókaaflahlutdeild 1. September 2015 – 50 stærstu

Nokkrar breytingar eru á hvaða fyrirtæki eru í efstu sætunum frá því sams konar upplýsingar voru birtar í febrúar sl. í kjölfar úthlutunar á aflamarki í deilistofnum, en það á sér stað við upphaf almanaksárs. Þannig stekkur Þorbjörn hf úr sjötta í þriðja sæti og FISK-Seafood ehf úr áttunda sæti í það fjórða. Eins og undanfarin ár eru HB Grandi og Samherji í tveimur efstu sætunum. HB Grandi er nú með um 10,9% af úthlutuðu aflamarki en Samherji er með 6,2%.  Samanlagt ráða þessi tvö stærstu útgerðarfyrirtæki landsins yfir 17,1% af aflaheimildunum samanborðið við 18,8% í upphafi þessa árs. Líkleg skýring á þessum breytingum liggur í því að við upphaf fiskveiðiársins var ekki úthlutað aflamarki í loðnu og litlu í öðrum uppsjávartegundum.  Þær vega því minna en oft áður í heildarmagni þorskígilda sem úthlutað var og fyrir vikið breytist hlutur útgerða innbyrðis vegna mismunandi tegundasamsetningar á hlutdeildum.  

Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða má heildaraflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 12% af samanlögðu heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda. Þá má aflahlutdeild í þorski ekki fara yfir 12%. Í ýsu, ufsa, grálúðu, steinbít, síld og loðnu má hún ekki fara yfir 20% og í karfa ekki yfir 35%.  Ekkert fyrirtæki fer yfir þessi mörk að þessu sinni.

Heildarkrókaaflahlutdeild einstakra eða tengdra aðila má ekki fara yfir 5% af samanlögðu heildarverðmæti krókaaflahlutdeilda. Þá má krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 4% í þorski og 5% í ýsu.

Þeim sem vilja kynna sér frekar reglur um hámarksaflahlutdeildir er bent á ákvæði 13. og 14. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 með síðari breytingum.

Hér má sjá til samanburðar töflur frá febrúar 2015 yfir þær útgerðir sem þá réðu yfir mestum aflaheimildum:

Aflahlutdeild 9. febrúar 2015 - 100 stærstu

Krókaaflahlutdeild 9. febrúar 2015 - 50 stærstu

Til baka Senda grein

Finna skip

Tungumál síðu
banner2
Þetta vefsvæði byggir á Eplica