Fréttir

Veiðigjöld 2014/2015

6.11.2015

Fiskistofa hefur tekið saman upplýsingar um álögð veiðigjöld vegna fiskveiðiársins 2014/2015.  Heildarfjárhæð  almenns og sérstaks veiðigjalds vegna  úthlutaðra veiðiheimilda og afla utan aflamarks, að teknu tilliti til lækkunar á sérstöku veiðigjaldi, nemur 7,7 milljörðum króna samanborið við 9,2 milljarða á fyrra fiskveiðiári. Þess má geta að afli í ágúst kemur ekki til álagningar fyrr en að ári eins og verið hefur undanfarin fiskveiðiár. Fiskistofa hefur því birt álögð veiðigjöld þess mánaðar með veiðigjöldum fiskveiðiárins sem á eftir kemur.

Þar sem árlegar breytingar hafa verið á reglum um álagningu veiðigjalda  er erfitt að gera nákvæman samanburð á veiðigjöldum  á milli ára.  Álagt almennt veiðigjald nam svipaðri upphæð bæði fiskveiðiárin 2013/2014 og 2014/2015 eða 4,4 til 4,6 milljörðum kr.  Eins og eftirfarandi tafla sýnir liggja helstu skýringar á muninum á milli ára að þessu sinni í því að um milljarði  minna er lagt á í sérstök veiðigjöld vegna uppsjávarveiða annars vegar, sem og vegna botn- og skelfiskveiða hins vegar.  Á móti kemur að lækkun veiðigjalds samkvæmt reglum þar að lútandi er um hálfum milljarði  lægri á fiskveiðiárinu 2014/2015 en á fyrra ári.

 Afli og sérstakt veiðigjald
 2013/2014  2014/2015
Afli í uppsjávarfiski
 600.000 tonn
 880.000 tonn
Afli í botn- og skelfiski
 496.000 tonn
 464.000 tonn
Sérstakt veiðigjald v. uppsjávarveiða
 3,6 milljarðar kr.
 2,6 milljarðar kr.
Sérstakt veiðigjald v. botn-og skelfiskveiða
 2,5 milljarðar kr.
 1,4 milljarðar kr.
Lækkun sérstaks veiðigjalds
 1,4 milljarðar kr.
 0,9 milljarðar kr.
Sérstakt veiðigjald alls
 4,8 milljarðar kr.
 3,1 milljarður kr.

Á upplýsingasíðu Fiskistofu um álögð veiðigjöld  er hægt að skoða lista yfir álögð gjöld á hvern greiðanda. Þar er einnig sundurliðun á veiðigjöldunum eftir útgerðarflokkum og fisktegundum.  Þess ber þó að geta að  fiskveiðiárið 2014/2015 er fyrsta  árið þar sem hægt er að greina sérstakt veiðigjald niður á fisktegundir.  Fyrir það ár voru sérstöku veiðigjöldin sundurliðuð á uppsjávarfisk annars vegar og botn- og skelfisk hins vegar.  Ennfremur er á upplýsingasíðunni sundurliðun á veiðigjöldum eftir stöðum á landinu.

Á upplýsingasíðunni er m.a. hægt að kynna sér núgildandi reglur um álagningu veiðigjalds fyrir nýhafið fiskveiðiár.  Á fiskveiðiárinu 2015/2016 er eitt veiðigjald sem lagt er á afla (en ekkert  á veiðiheimildir). Veiðigjaldið verður ekki innheimt fyrr en í febrúar 2016 og þá vegna landaðs afla í september til desember 2015.  Eftir það verður veiðigjald innheimt mánaðarlega af lönduðum afla í næstliðnum mánuði.

Upplýsingasíða Fiskistofu um veiðigjöld


Til baka Senda grein

Finna skip

Tungumál síðu
banner5
Þetta vefsvæði byggir á Eplica