Fréttir

Afli úr deilistofnum 2015

18.1.2016

Fiskistofa hefur tekið saman yfirlit yfir afla í deilistofnum á árinu 2015 í  norsk-íslenskri síld, makríl, úthafskarfa á Reykjaneshrygg og kolmunna.  Góð veiði var í makríl og kolmunna á árinu en dræm í hinum tegundunum tveimur.

En dregst afli saman í  norsk-íslenskri síld

Íslendingar veiddu á síðasta ári 42.626 tonn af norsk-íslenskri síld. Þetta er minnsti afli íslenskra skipa úr þessum síldarstofni síðan 1994 eða í rúm tuttugu ár. Mest af aflanum úr norsk-íslenska síldarstofninum var veiddur úr íslenskri lögsögu eða 39.119 tonn (91,8% aflans). Úr færeyskri lögsögu veiddust 3.088 tonn og á alþjóðlegu hafsvæði veiddust 419 tonn. Aflamark íslenskra skipa í norsk-íslenskri síld á árinu 2015 var rúmlega 45 þúsund tonn en verður litlu meira á komandi vertíð eða rétt tæplega 48 þúsund tonn.

Góður afli í makríl

Makrílafli íslenskra skipa á síðasta ári var 169.336 tonn en var árið áður 173.560 tonn. Þetta var samdráttur uppá 2,4% milli ára. Af þessum afla voru 148.280 tonn fengin úr íslenskri lögsögu eða 87,6 % aflans. Makrílafli íslenskra skipa á alþjóðlegs hafsvæði er 19.507 tonn og afli í færeyskri lögsögu nam 1.549 tonn.

Úthafskarfinn á Reykjaneshrygg í sögulegri lægð


Enn dregur úr afla í úthafskarfa og hefur hann aldrei verið minni síðan íslensk skip hófu beina sókn í úthafskarfa á Reykjaneshrygg. Á síðustu vertíð veiddu þau aðeins 2.128 tonn af úthafskarfa samanborið við 2.436 tonn árið áður sem var langminnsti afli íslensk skipa í úthafskarfa á svæðinu síðan þau hófu sókn í þann rauða á svæðinu. Það er því ljóst eins og má sjá á myndinni hér til hliðar að mikið samdráttartímabil er í afla á úthafskarfa á Reykjaneshrygg.  Þess má geta að aflamark íslenskra skipa á nýliðnu ári var 3.244 tonn og voru íslensk skip því nokkuð frá því að veiða upp í aflamarkið. Aflamarkið fyrir komandi vertíð er 2.614 tonn.

Á velmektarárum úthafskarfaveiðanna á Reykjaneshrygg fór heildarafli íslensku skipanna oft yfir 40 þúsund tonn. Aflinn á síðustu tveimur vertíðum er því aðeins svipur hjá sjón.

Góð veiði í kolmunna

Á síðasta ári veiddu íslensk skip 214.890 tonn af kolmunna. Þetta er mesti ársafli íslenskra skipa á tegundinni síðan 2007 en undanfarin ár hafa veiðar á kolmunna verið í nokkurri lægð enda hafa aflaheimildir verið skornar verulega niður. Til að mynda var aflinn 5.882 tonn árið 2011 eða aðeins 2,7% af afla síðasta árs. Aflamark íslenskra skipa í kolmunna á þessu ári er 139.021 þúsund tonn samanborið 212.913 tonn á síðustu vertíð.

Skiptingu afla íslenskra skipa í úthafstegundum eftir veiðisvæðum er hægt að skoða hér.

Til baka Senda grein

Finna skip

Tungumál síðu
banner1
Þetta vefsvæði byggir á Eplica