Fréttir

Verðþróun á aflamarki í þorski

30.5.2016

Undanfarna mánuði hefur verð á aflaheimildum verið nokkuð stöðugt í þorski bæði í aflamarks- og krókaaflamarkskerfinu. Verðið er nú í kringum 225 kr/kg í báðum kerfum.

Meðfylgjandi línurit sýnir verðþróun í aflamarki og krókaaflamarki í þorski á tímabilinu 1. janúar 2007 til  og með 25. maí á yfirstandandi ári. Miðað er við hæsta verð hvern dag í viðskiptum með aflamark / krókaaflamark sem flutt er milli óskyldra aðila, þ.e. útgerða með ólíka kennitölu.  Upphæðirnar eru á verðlagi hvers árs.

Af verðþróuninni að dæma má ljóst vera að verðfallið sem varð á haustmánuðunum 2012, sem má rekja aðallega til aukins framboðs á þorski á erlendum mörkuðum, hefur ekki gengið til baka nema að litlu leyti en verðið í aflamarkskerfinu fór hæst í upphafi árs 2012 í 330 kr. en stendur í dag í rúmum 225 kr. Verðið hefur verið nokkuð stöðugt síðastliðin tvö ár eða á bilinu 215 til 227 kr. í aflamarkskerfinu en verð hefur hækkað eitthvað í krókaaflamarkskerfinu.

Það sem vekur mesta athygli í verðþróuninni á síðastliðnu misseri er að verð í krókaaflamarkskerfinu hefur nálgast verð í aflamarkskerfinu og er nú það sama. Hér áður fyrr var verðmunurinn á heimildunum að jafnaði um 10-20%  milli kerfanna.

Stöplaritið sýnir magn sem leigt er á milli skipa óskyldra aðila í báðum kerfum frá árinu 2007. Það ber þó að hafa í huga að gögnin ná á yfirstandandi ári til 25. maí sl.  Árið 2007 voru 40.651 tonn leigð á milli skipa í báðum kerfum. Magnið dróst nokkuð saman árin eftir efnahagshrunið og var komið niður í 18.743 tonn árið 2010 en tók þá að aukast jafnt og þétt til ársins 2014 þegar magnið fór í  32.557 tonn en var litlu minna árið eftir eða 29 þúsund tonn.

Hér er hægt að sjá  nánar öll  viðskipti (magn og leiguverð) með aflamark eftir tegundum fyrir tímabil að eigin vali.

Til baka Senda grein

Finna skip

Tungumál síðu
banner2
Þetta vefsvæði byggir á Eplica