Grásleppuveiðar 2016
Það sem af er vertíð eru komin á land 4.979 tonn af grásleppu. Þetta er nokkuð minni afli en á sama tíma á síðustu vertíð en þá höfðu 5.484 tonnum verið landað.
Í stöplaritinu hér til hliðar má sjá grásleppuafla síðastliðnar fimm vertíðir fram til 24. júní síðustu vertíða.
Alls hafa 245 bátar sótt um leyfi til grásleppuveiða á þessari vertíð. Fjöldi útgefinna leyfa er æði misjafn milli svæða. Aðeins sex leyfi hafa verið gefin út fyrir svæði G sem er suðurland frá Hvítingum að Garðsskaga en 94 leyfi fyrir svæði E sem nær frá Skagatá austur að Fonti á Langanesi. Þetta eru mun færri leyfi en gefin voru út á allri síðustu vertíð en þá voru þau 320 talsins eða 75 fleiri en á yfirstandandi vertíð. .
Það sem af er vertíð er Helga Sæm ÞH-78 aflahæst með 68,4 tonn en hún er gerð út á svæði E sem er Norðausturland. Næstur í röðinni er Máni ÞH-98 með 65,6 tonn. Á myndinni hér til hliðar má sjá tíu aflahæstu báta vertíðarinnar og einnig tíu aflahæstu báta síðustu vertíðar fram til 24. júní.