Fréttir

Húsnæði fyrir höfuðstöðvar Fiskistofu á Akureyri

1.7.2016

Í dag, 1. júlí, var undirritaður samningur um leigu á húsnæði fyrir höfuðstöðvar Fiskistofu á Akureyri. Um er að ræða samtals 715 fermetra húsnæði á 3. hæð hússins við Norðurslóð 4 sem einnig gengur undir nafninu Borgir. Samningurinn er til 10 ára með möguleika á framlengingu að þeim tíma liðnum. Húsnæðið, sem er í eigu Reita II ehf., verður afhent Fiskistofu til afnota 15. september í haust. Þar með er mikilvægum áfanga í flutningi höfuðstöðvanna náð og mikið tilhlökkunarefni fyrir starfsfólk Fiskistofu á Akureyri að komast í gott og vandað framtíðarhúsnæði. Þess má geta að Verðlagsstofa skiptaverðs mun einnig verða í sama húsnæði en Fiskistofa hefur um nokkurra ára skeið annast rekstur skrifstofu Verðlagsstofu og náið og gott samstarf er á milli stofnananna.

Skrifstofufólk Fiskistofu á Akureyri hefur frá síðasta hausti verið í bráðabirgðahúsnæði á 7. hæð í Borgum en veiðieftirlitsmenn hafa starfsaðstöðu í Oddeyrarskála við Strandgötu ásamt Verðlagsstofu skiptaverðs. Í september verða því allir starfsmenn þessara tveggja stofnana komnir undir sama þak í skemmtilegt og frjótt umhverfi í nálægð við þær stofnanir sem fyrir eru í Borgum og Háskólann á Akureyri.

Fulltrúar Fiskistofu og Reita undirrita leigusamning um húsnæði fyrir höfuðstöðvar Fiskistofu

Eyþór Björnsson, fiskistofustjori, og fulltrúi Reita, Halldór Jensson, undirrita húsaleigusamninginn undir vökulum augum Hildar Aspar Gylfadóttur og Margrétar Kristínar Helgadóttur.

Til baka Senda grein

Finna skip

Tungumál síðu
banner4
Þetta vefsvæði byggir á Eplica