Fréttir

Nýjar reglur um veiðar á göngusilungi í sjó

1.7.2011

sjobleikjaSettar hafa verið nýjar reglur um veiðar á göngusilungi í sjó. Verður nú vikið að helstu ákvæðum í þessum nýju reglum:

Reglur nr. 331/2011

Með þessum reglum voru sett ný almenn viðmið um búnað slíkra veiðitækja, sem komu í stað ákvæða í reglum nr. 261/1996, sem falla úr gildi. Helsta breytingin er að nú er bannað að nota blakkir, talíur eða annan vélrænan búnað til að leggja, draga inn eða strekkja silunganet en hins vegar er heimilt að festa net á stengur og fergja blýlínu.

Reglur nr. 409/2011

Með þessum reglum er bönnuð netaveiði á göngusilungi í sjó á árunum 2011 og 2012 frá og með 10. júní til og með 10. ágúst á svæðinu frá Akranesi að Hítará á Mýrum. Megintilgangur þessara reglna er að vernda bleikjustofna á Hvítársvæðinu, sem hafa átt mjög undir högg að sækja hin síðari ár en einnig að koma í veg fyrir veiðar á laxi í silunganet þegar mest gengur af laxi. Laxveiðar í sjó eru sem kunnugt er bannaðar hér á landi en fyrir liggur að lax flækist í nokkrum mæli í silunganet.

Reglur nr. 611/2011

Með þessum reglum eru silungsveiðar í sjó bannaðar á árunum 2011 og 2012 frá 1. júlí til og með 10. ágúst með allri strandlengju Þistilfjarðar. Megintilgangur þessara reglna er að vernda sjóbleikjustofna, sem víða eiga undir högg að sækja vegna hlýnandi veðurfars, en einnig að koma í veg fyrir veiðar á laxi í silunganet en stórlaxi hefur hnignað verulega á norðanverðu landinu undanfarin ár.

Reglur nr. 612/2011

Með þessum reglum er sett bann við netaveiði á göngusilungi í sjó á árinu 2011 frá og með 1. júlí til og með 1. ágúst með strandlengju Skjálfandaflóa frá ósum Laxár að Tjörnestá. Auk þess að verja bleikjustofna svæðisins er þessi ráðstöfun mikilvæg til að koma í veg fyrir veiðar á laxi í silunganet en stórlax hefur mjög átt undir högg að sækja í Laxá í Aðaldal undanfarin ár og hefur veiðifélagið brugðist við með því að setja reglur um að eingöngu megi veiða á flugu og sleppa skuli öllum löxum sem veiðast .

Rétt er að benda á að allar ofangreindar reglur koma til viðbótar við miklar takmarkanir á netaveiðum göngusilungs í sjó samkvæmt lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði með síðari breytingum. Þannig eru allar netaveiðar óheimilar hálfa vikuna þ.e. frá kl. 22:00 á föstudagskvöldi fram til kl. 10:00 á þriðjudagsmorgni og hafa slíkar reglur verið í gildi hér á landi um áratugaskeið.Til baka Senda grein

Finna skip

Tungumál síðu
banner3
Þetta vefsvæði byggir á Eplica