Fréttir

Vel heppnað eftirlit með grásleppuveiðum

22.6.2012

Fiskistofa hefur haldið uppi öflugu eftirliti með bátum sem stundað hafa grásleppuveiðar á yfirstandandi vertíð. Fiskistofa naut samstarfs við Landhelgisgæslu Íslands við veiðieftirlit í Breiðafirði á slöngubátnum Flóka. Það samstarf stóð í samtals 13 daga frá maí og fram í júní og var farið um borð í 39 grásleppubáta og 11 strandveiðibáta. Það er ljóst að þetta samstarf hefur orðið til þess að stórauka afköst og nákvæmni veiðieftirlitsins.

Nokkuð bar á því að upp kæmu alvarleg brot gegn lögum og reglum á tímabilinu. Afskipti voru höfð af alls 14 bátum vegna gruns um of mörg grásleppunet í sjó, af 7 bátum vegna rangra númeramerkinga á trossum og af einni útgerð vegna yfirtöku neta þar sem veiðarfæri voru merkt á sjó öðrum báti hennar án þess að þau væru tekin í land. Einn skipstjóri vanrækti að tilkynna eftirlitsmönnum um veiðiferð og í einu tilviki var afli ekki færður til vigtunar í löndunarhöfn. Geta þessi brot varðað sviptingu veiðileyfis og eru brot er varða netafjölda og yfirtöku auk þess kærð til lögreglu. Fjögur mál vegna brottkasts komu upp en þau geta einnig varðað sviptingum og kæru til lögreglu.

Auk þessa komu upp nokkur tilvik þar sem veiðar voru hafnar fyrir gildistöku grásleppuveiðileyfis en gildistaka leyfis er háð því að greiðsla fyrir veiðileyfið hafi borist Fiskistofu. Hjá 11 bátum voru gerðar minniháttar athugasemdir við merkingar og hjá tveimur var afladagbók ekki um borð.

Þegar hafa sjö bátar verið sviptir veiðileyfi vegna ofangreindra brota og munu flestar þeirra sviptinga taka gildi frá og með upphafi næsta grásleppuveiðitímabils eða við næstu útgáfu viðkomandi leyfis. Fjögur mál hafa verið kærð til lögreglu, þar af tvö af Landhelgisgæslunni og fimm útgerðir hafa fengið áminningar vegna brota á bátum þeirra.

Á tímabilinu hafa komið upp alls 56 brotamál, þar af 35 meiriháttar og 21 minniháttar. Um 29 mál eru enn í vinnslu og 27 er lokið.

Til baka Senda grein

Finna skip

Tungumál síðu
banner3
Þetta vefsvæði byggir á Eplica