Veiði á göngusilungi hefst í dag
Þó veðurspáin sé kuldaleg fyrir næstu daga er vorið samt á næsta leiti. Í dag 1. apríl hefst veiðitímabil fyrir sjógöngusilung. Margir stangveiðimenn hafa beðið eftir þessu með nokkurri óþreyju og hafa þegar gert ráðstafanir fyrir fyrstu veiðiferðina. Margt er með öðru móti á þessum tíma þegar samfélagið glímir við kórónuveirufaraldur og flestir hlutir í daglegu lífi hafa gengið úr skoðum. Það er mikilvægt að stangveiðimenn fari að tilmælum vegna sóttvarna við veiðar, eins og í öðru. Muna að hafa alltaf stangarlengd í það minnsta í næsta veiðimann.
Á þessum árstíma gengur sjógöngusilungur til
sjávar í ætisleit. Hefst fiskurinn við í nágrenni við heimaá sína
yfir sumarmánuði og gengur aftur á hrygningaslóð að hausti. Veiðitímabilinu lýkur 1. október en þá
hefst hrygningatíminn.
Ástæða er til að takmarka veiðitíma fyrir sjógöngusilung eins og gert er í íslenskum lögum og vernda hann á viðkvæmum tíma. Í því samhengi má nefna að þó notuð væri sú veiðiaðferð að sleppa veiddum fiskum getur það samt haft neikvæð áhrif einkum á hrygningartíma. Því er mikilvægt að veiðimenn og veiðifélög virði lögbundinn veiðitíma. Takmörkun á veiðitíma stuðlar m.a. að því að hagsmunir þjóðarinnar vegna nýtingar á þessari verðmætu auðlind verið tryggðir til framtíðar. Fiskistofa hefur eftirlit með því að lögbundinn veiðitími sér virtur og leggur þannig sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærri nýtingu.