sidareglur

Siðareglur Fiskistofu

Starfsmönnum Fiskistofu ber að:  

1. Starfa í þágu almennings af vandvirkni, heiðarleika og samkvæmt bestu dómgreind.


Starfsmanni Fiskistofu ber að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi. Hann skal vera réttsýnn og sanngjarn í störfum sínum og koma fram af kurteisi og lipurð og forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis og varpað getur rýrð á starf hans eða Fiskistofu. 


2. Tileinka sér vinnubrögð sem skapað geta traust á starfi þeirra og stofnun.


Starfsmaður viðhefur fagleg vinnubrögð og gætir að mörkum stjórnmála og stjórnsýslu. Fiskistofa hefur eftirlit með því að farið sé að lögum og reglum um fiskveiðar, en hefur ekki það hlutverk að ákveða hvaða kerfi eru höfð við stjórnun fiskveiða. Alþingi setur lög um það og ráðherra útfærir með reglugerðum og stefnumótun innan þess ramma sem lögin setja. Sama á við um samningsbundin réttindi og skyldur útgerðarmanna og sjómanna, fiskverð o.þ.h.  

Starfsmaður skal gæta trúnaðar og þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara samkvæmt ákvæðum laga, fyrirmælum stjórnenda eða eðli máls. Þetta á við hvort sem um er að ræða atriði sem varða aðila sem Fiskistofa hefur samskipti við eða hefur afskipti af, stofnunina sjálfa eða starfsmenn hennar.  

Starfsmenn Fiskistofu sýna trúnað og þagmælsku varðandi einstök mál sem eru og hafa verið til meðhöndlunar með beinum eða óbeinum hætti. Þetta er ávallt mikilvægt en þó sérstaklega þegar um er að ræða brotamál og viðurlagaákvarðanir, s.s. sviptingar leyfa, álagningar gjalda eða kærur til lögreglu eða annarra stjórnvalda. Þetta á við um samtöl og samskipti við utanaðkomandi aðila en einnig samtöl við starfsmenn Fiskistofu sem ekki taka beinan þátt í meðferð slíkra mála.  


3. Vinna gegn sóun og ómarkvissri meðferð fjármuna.


Starfsmenn Fiskistofu sýna ráðdeild við meðferð fjármuna og eigna ríkisins og stuðla að því sama meðal samstarfsmanna. Ekki er stofnað til útgjalda fyrir hönd Fiskistofu nema tilefni þeirra samræmist starfseminni. Starfsmenn fara vel með þær eigur stofnunarinnar sem þeir hafa til umráða og er trúað fyrir. 


4. Efla vitund um jafnrétti og önnur mannréttindi.


Starfsmenn Fiskistofu rýra ekki í starfi sínu trúverðugleika stofnunarinnar með ámælisverðri framkomu, skeytingarleysi um lög eða virðingarleysi við mannréttindi. 


5. Stuðla að gagnsæjum starfsaðferðum og góðum samskiptum á vinnustað. 


Starfsmenn sýna hverjir öðrum virðingu, tillitssemi og hjálpfýsi og leggja sitt af mörkum til eflingar og varðveislu árangursríks samstarfs og góðs starfsanda. Þeir eru vakandi fyrir málefnum sem eðlilegt er að upplýsa fjölmiðla eða almenning um og benda næsta stjórnanda á slíkt, eftir því sem við á. 


6. Láta samstarfsfólk njóta sannmælis og sanngirni.


Starfsmenn Fiskistofu sýna aðgát og virða trúnað um viðkvæm málefni samstarfsmanna sem varða störf þeirra og einkalíf. 


7. Gæta að orðspori vinnustaðar í samskiptum utan vinnu.


Starfsmenn Fiskistofu draga skýr mörk milli einkalífs og vinnu. Starfsmenn stunda ekki viðskipti sem gætu með réttu gefið tilefni til tortryggni að því er varðar meðferð mála og upplýsinga, sem þeir öðlast í störfum sínum, eða trúverðugleika Fiskistofu.  


8. Hvetja samstarfsfólk til að leita réttar síns telji það á sér brotið.


Starfsmenn geta leitað til næsta stjórnanda, mannauðsstjóra og fiskistofustjóra. 


9. Koma fram við borgarana af háttvísi og virðingu.


Starfsmenn sýna háttvísi og sanngirni og leysa fljótt og vel úr erindum sem berast Fiskistofu. Erindi sem borin eru upp við starfsmann og falla ekki beint undir starfssvið hans er vísað til þess starfsmanns sem um slík mál fjallar. Ef um flóknar fyrirspurnir eða umfangsmikil erindi er að ræða er rétt að óska eftir þeim skriflega. 


10. Virða skoðana- og tjáningarfrelsi.


Lögð er áhersla á að starfsmenn Fiskistofu eigi greið og opin samskipti við alla aðila. 


11. Forðast hagsmunaárekstra.


Starfsmenn Fiskistofu þiggja ekki greiða, þjónustu eða gjafir s.s. fisk í soðið, málsverði, áfengi, boðsferðir eða önnur verðmæti eða hlunnindi af aðilum sem Fiskistofa hefur einhvers konar eftirlit með, veitir þjónustu eða hefur afskipti af, nema um sé að ræða óveruleg verðmæti eða hagsmuni og þá ávallt að höfðu samráði við stjórnanda.   

Þegar starfsmenn eiga í viðskiptum við þá aðila sem sæta eftirliti Fiskistofu er það gert utan vinnutíma, skv. verðskrá eða á þeim viðskiptakjörum sem standa öðrum viðskiptamönnum að jafnaði til boða, auk þess sem kvittanir eða reikningar fyrir viðskiptunum liggja fyrir um leið og þau fara fram. Starfsmenn stofna ekki til viðskipta við þá aðila sem sæta eftirliti Fiskistofu, eða afla sér eða öðrum viðskiptakjara hjá þeim, á vinnutíma, í einkennisfatnaði eða á bíl Fiskistofu. Starfsmenn notfæra sér ekki stöðu sína eða upplýsingar fengnar í starfi í eiginhagsmunaskyni. 


12. Gæta þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf þeirra.


Starfsmenn Fiskistofu taka ekki þátt í umfjöllun eða afgreiðslu mála sem varða þá eða venslafólk. Starfsmaður fjallar ekki um eða afgreiðir mál ef hann eða fjölskylda hans, nánasta tengdafólk eða nánir vinir eiga í fyrirtæki sem mál varðar eða hafa verulega hagsmuni af afgreiðslu þess beint eða óbeint. Minniháttar hlutafjáreign í almenningshlutafélagi telst ekki eignaraðild í þessu sambandi. Starfsmaður forðast að fjalla um eða afgreiða mál ef hann tengist stjórnendum hlutaðeigandi fyrirtækis verulega eða fyrir hendi eru aðrar þær aðstæður sem til þess eru fallnar að draga megi óhlutdrægni starfsmannsins í efa með réttu. Starfsmaður gerir stjórnanda sínum grein fyrir ef framangreindum aðstæðum er til að dreifa og skal álitamálum sem rísa í þessu sambandi vísað til fiskistofustjóra. 


13. Leita samvinnu um úrlausn mála eftir því sem kostur er.


Í samskiptum við hagsmunahópa hafa starfsmenn Fiskistofu í huga að skyldur stjórnsýslunnar eru fyrst og fremst við almenning. Starfsmenn gæta jafnræðis þegar komið er til móts við óskir hagsmunahópa.   

Starfsmenn leitast við að eiga skilvirkt samstarf við Alþingi og eftirlitsstofnanir þess. 


14. Standa vörð um óhlutdrægni og faglegt sjálfstæði.


Starfsmanni er óheimilt að gegna eða taka við öðru launuðu starfi samhliða starfi sínu hjá Fiskistofu, hefja atvinnurekstur eða setjast í stjórn fyrirtækis, án vitundar og samþykkis stjórnanda síns. Ef stjórnandi telur að starf, atvinnurekstur eða stjórnarseta kunni að vera ósamrýmanleg starfi hlutaðeigandi starfsmanns hjá Fiskistofu skal hann vísa málinu til fiskistofustjóra. 


15. Vekja athygli viðeigandi aðila á ólögmætum ákvörðunum og athöfnum.


Verði starfsmaður Fiskistofu var við einhverja þá háttsemi innan stofnunarinnar sem hann telur ólögmæta eða ekki samræmast siðareglum skal hann taka málið upp við stjórnanda, mannauðsstjóra eða fiskistofustjóra. Varði málið fiskistofustjóra eða ef starfsmaður telur sér af einhverjum ástæðum ekki fært að taka málið upp við hann eða er ósáttur við hvernig fiskistofustjóri tekur á máli sem hann hefur til hans beint getur starfsmaður farið með mál til ráðuneytisstjóra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu eða eftir atvikum til Ríkisendurskoðunar, umboðsmanns Alþingis eða lögreglu.  Starfsmaður sem í góðri trú greinir með ofangreindum hætti frá slíkri háttsemi skal á engan hátt gjalda þess. 


16. Axla ábyrgð á eigin ákvörðunum og athöfnum.


Sérhver starfsmaður er í samræmi við stöðu sína og hlutverk ábyrgur fyrir athöfnum sínum og gjörðum, sem skulu vera almenningi til heilla og í samræmi við stjórnarskrá og landslög. Stjórnendur kynna starfsmönnum reglur sem gilda um störf þeirra og ganga á undan með góðu fordæmi. Stjórnendur eru á varðbergi gagnvart aðstæðum sem auka líkur á að ekki sé farið að reglum og bregðast við ef þörf krefur.   

Hver starfsmaður gætir að því fyrir sitt leyti að farið sé eftir siðareglum þessum. Fiskistofustjóri sér til þess að starfsmönnum sé kunnugt um reglurnar og að þær séu eðlilegur þáttur í starfi þeirra. Sé starfsmaður í vafa um að einhver tilvik samræmist siðareglum skal hann leita ráðgjafar um það efni hjá stjórnanda, mannauðsstjóra eða fiskistofustjóra.

   

Brot á siðareglum geta í einhverjum tilvikum falið í sér brot á ákvæðum laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna sem getur leitt til áminningar og uppsagnar. 

 

19. febrúar 2019

Eyþór Björnsson


Lög, reglur og viðmið sem litið var til við gerð siðareglna Fiskistofu:  


Finna skip

Tungumál síðu
banner4
Þetta vefsvæði byggir á Eplica