Veiðivottorð

Veiðivottorð

Sótt er um aðgang að veiðivottorðakerfi í netfangið vottord@fiskistofa.is. Umsókninni þurfa að fylgja upplýsingar um nafn fyrirtækis, heimilisfang, kenntölu, netfang og símanúmer.

Vinsamlegast athugið að vinnsluvottorð eru afgreidd á Fiskistofu þriðjudaga til föstudaga frá 8.30 til 12.00. Vinnsluvottorð eru ekki afgreidd á mánudögum. Beiðni um staðfestingu vinnsluvottorðs á að senda á vottord@fiskistofa.is.

Fiskafurðum sem fluttar eru á markaðssvæði ESB þurfa að fylgja ólík skjöl, eftir eðli og uppruna afurðanna. Þessi skjöl eru þrenns konar:

  • Veiðivottorð: Vottorð fyrir afurðir unnar úr afla íslenskra skipa. Með þessu vottorði staðfesta íslensk stjórnvöld að aflinn hafi verið veiddur undir stjórn íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins. Útflytjanda á Íslandi ber að senda veiðivottorðið til innflytjanda sem kemur vottorðinu til lögbærra yfirvalda í sínu landi.
  • Vinnsluvottorð: Sé afli unninn úr afurðum erlendra skipa þarf að fylgja sérstakt vottorð staðfest af Fiskistofu þess efnis að vinnslan hafi leyfi til að vinna aflann og að veiðivottorð frá fánaríkjum skipsins hafi fylgt aflanum við innflutning. Vinnsluvottorð er að finna hér, leiðbeiningar um útfyllingu þeirra er að finna hér.
  • Staðfesting á því að afli erlendra skipa sem geymdur er á Íslandi hafi ekki verið unninn. Hér verður nýst við tollaskjöl eða svokallað E7 skjal sem Tollurinn gefur út.

Ísland hefur gert samkomulag við ESB um framkvæmd við útgáfu íslenskra veiðivottorða. Samkomulagið er að finna hér. Með þessu samkomulagi fær Ísland undanþágu frá eiginlegu veiðivottorði reglugerðarinnar gegn því að skila einfaldara íslensku vottorði. Megin upplýsingar vottorðsins eru tollaflokkur sendingarinnar (gámsins), nettó magn, fisktegund, þau veiðiskip og þær löndunardagsetningar aflans sem afurðin er unninn úr og móttakandi aflans á Evrópu endanum. Undirskrift útflytjanda er rafræn og stimpill Fiskistofu er rafrænn. Til þess að upplýsingar í vottorðunum séu réttar er mikilvægt að fiskvinnslur geti á hverjum tímapunkti vinnslunnar gert grein fyrir uppruna (skipi og löndunardags.) þess hráefnis sem unnið er með.

Veiðivottorð eru ekki gefin út fyrir erlend skip. Nokkuð er um að erlend skip landi afla á Íslandi og hann síðan unninn hér. Fyrir þennan afla þarf að gefa út veiðivottorð frá heimalandi  skipsins, en ekki íslenskt, og eftir atvikum síðan íslenskt vinnsluvottorð. Þessi  erlendu skip fá úthlutað skipaskrárnúmeri á bilinu 3000 til 4999 hérlendis vegna  löndunarinnar, en ef slíkt númer er slegið inn í  veiðivottorðakerfið kemur upp villutilkynningin "Erlent skip".

Tilteknir tollflokkar og ákveðnar afurðir eru undanþegnar kröfu um veiðivottorð. Upplýsingar um það er að finna í tenglunum hér að neðan.

Afurðir undanskildar veiðivottorðum (listi) (frá 28.01.2010)

Tollaflokkar sem eru undanskildir veiðivottorðum (frá 1. mars 2011)


Finna skipTungumál síðu
banner6
Þetta vefsvæði byggir á Eplica