Tilkynningar

Sending tilkynningar um umframafla

17.9.2018

Fiskistofa hefur hingað til sent símskeyti til útgerða og skipstjóra þegar upplýsingar Fiskistofu benda til þess að skip hafi veitt umfram aflaheimildir sínar. Frá og með 1. október verður sendingu símskeyta hætt á Íslandi.

Þar með hættir Fiskistofa sendingu símskeyta um umframaflastöðu skipa frá og með 1. október 2018.

Með því að fylla út eyðublaðið hér að neðan geta útgerðir gert samning við Fiskistofu um að

fá sendar með tölvupósti tilkynningar um umframaflastöðu þeirra skipa sem þær gera út.

Beiðni útgerðar um sendingu tilkynninga um umframaflastöðu í tölvupósti

ATH: Hægt er að fylla út í eyðublaðið í forritum eins og Acrobat Reader, prenta svo út og undirrita.

Þær útgerðir sem þegar hafa undirritað svonefndan boðunarsamning þurfa ekki að fylla út eyðublaðið hér að ofan.

Í beiðni útgerðar um sendingu tilkynninga um umframaflastöðu í tölvupósti felst eftirfarandi

Óski útgerð eftir tilkynningu Fiskistofu um umframaflastöðu skipa sem þau gera út með tölvupósti  fellst útgerðin á að um sé að ræða tilkynningu skv. 14. gr. laga nr. 57/1996. Fiskistofa sendir slíka tilkynningu með tölvupósti til útgerða þegar upplýsingar Fiskistofu benda til þess að skip, sem viðkomandi útgerð gerir út, hafi veitt umfram aflaheimildir sínar í einhverri tegund.

Í tilkynningunni er tilgreint að skipið sé svipt leyfi til veiða í atvinnuskyni frá og með fjórða virka degi hafi fullnægjandi aflaheimildir ekki verið fluttar til skipsins innan þess tíma. Séu aflaheimildir skipsins að liðnum fresti auknar þannig að afli skipsins á fiskveiðiárinu rúmist innan þeirra er því veitt leyfi að nýju. Óheimilt er að stunda veiðar í atvinnuskyni eftir að tilkynning um umframaflastöðu berst með tölvupósti nema að fenginni staðfestingu Fiskistofu.

Fiskistofa áréttar að tilkynningar um umframaflastöðu skipa léttir ekki ábyrgð af útgerð og skipstjóra. Þeim er eftir sem áður skylt að fylgjast með stöðu aflaheimilda skipa sinna með hliðsjón af úthlutuðum aflaheimildum, flutningi aflaheimilda og lönduðum afla, skv. 14. gr. laga nr. 57/1996. Á vefsíðu Fiskistofu, www.fiskistofa.is er haldið utan um stöðu aflaheimilda hvers og eins skips. Hægt er að fletta upp skipi, sjá stöðu aflaheimilda, landanir og hvort þær séu allar komnar inn í kerfið, sem og flutning aflaheimilda. Auk þess er hægt að hringja til Fiskistofu ef netsamband skortir og útgerð eða skipstjóri eru óvissir um stöðu aflaheimilda.


Skip sem lenda í umframaflastöðu en eru ekki með samnnig um tilkynningu um það í tölvupósti

Ef útgerð kýs að fá ekki senda tilkynningu frá Fiskistofu um umframaflastöðu skipa sinna með tölvupósti mun Fiskistofa ekki tilkynna viðkomandi útgerð um umframaflastöðu frá og með 1. október 2018.

Sé skipi haldið til veiða í umframaflastöðu og útgerð hefur ekki þegið tilkynningu um umframaflastöðu skipa sinna frá Fiskistofu í tölvupósti skv. 14. gr. laga nr. 57/1996 er litið svo á að til greina komi að áminna eða eftir atvikum svipta skipið leyfi til veiða í atvinnuskyni skv. 15. gr. laganna vegna brota á 2. mgr. 3. gr. laganna.

Í því tilfelli getur komið til áminningar eða sviptingar þó svo aflaheimildastaða viðkomandi skips hafi verið aukin þannig að afli skipsins á fiskveiðiárinu rúmist innan þeirra. Ef til sviptingar kemur er leyfið ekki veitt að nýju þegar aflaheimildir hafa verið auknar þannig að afli skipsins á fiskveiðiárinu rúmist innan þeirra heldur fer það skv. 2. mgr. 15. gr. laganna.


 
Finna skip

Tungumál síðu
banner2
Þetta vefsvæði byggir á Eplica