Tilkynningar

Slysaslepping í Tálknafirði - uppfært

16.7.2018

Fiskistofa fékk tilkynningu frá Arnarlaxi í morgun, 6. júlí, um það að laxar hefðu sloppið úr sjókví fyrirtækisins í Tálknafirði. Göt fundust á kvínni (100x50 cm og 100x70 cm) sem skýrt getur að laxar hafi sloppið. Meðalþyngd fiska í kvínni er 3,5 kg. Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu var viðbragðsáætlun fyrirtækisins strax virkjuð og reynt að veiða strokulaxa í nágrenni við kvínna. 

Ekki er ljóst á þessari stundu hve margir laxar hafa sloppið. Eftirlitsmaður Fiskistofu mun fara á vettvang í dag og kanna aðstæður. Fiskistofa mun stjórna veiðum á strokufiskum næstu daga í samvinnu við Arnarlax. Fiskistofa mun greina nánar frá þessari slysasleppingu þegar meiri upplýsingar liggja fyrir um málið.

Uppfært 9. júlí 2018

Fiskistofa hefur stjórnað veiðum vegna slysasleppingar úr sjókví Arnarlax í Tálknafirði síðustu daga, eða frá því tilkynning um atburðinn barst 6. júlí sl.

Fjórir laxar hafa nú veiðst í net við kvíarnar. Net verða áfram við kvíarnar svo lengi sem Fiskistofa telur þörf á því. Í famhaldi mun Fiskistofa kanna hvort laxar kunni að leita í ár í Tálknafirði og nágrenni.

Uppfært 16. júlí 2018

Fiskistofa hefur stjórnað veiðiaðgerðum í samvinnu við Arnarlax hf. vegna slysasleppingar sem varð úr sjókví fyrirtækisins og tilkynnt var um 6. júlí sl. í samræmi við 13. gr. laga nr. 71/2008.

Alls hafa 5 eldislaxar veiðst í net við kvínna, fjórir laxar höfðu veiðst 9. júlí og einn veiddist 12. júlí. Síðan þá hefur ekki veiðst í net á svæðinu og voru net tekin upp í gær, 15. júlí.

Veiðitilraunum hefur nú verið hætt, nema nýjar upplýsingar gefi tilefni til annars. Fylgst verður með því hvort laxar leiti í ár í Tálknafirði og nágrenni.

Fiskstofa hefur átt gott samstarf við Arnarlax hf. um allar aðgerðir til að bregðast við þessari slysasleppingu.

 

 

 

 

 


Finna skip

Tungumál síðu
banner2
Þetta vefsvæði byggir á Eplica