Stjórn fiskveiða

Um fiskveiðistjórnun

Fiskveiðistjórnun

Markmið íslenskra stjórnvalda með stjórn fiskveiða er lögum samkvæmt að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.

Við stjórnun veiða íslenskra skipa er ýmsum aðferðum beitt. Þar má nefna úthlutun veiðileyfa og aflaheimilda, reglur um gerð og útbúnað veiðarfæra og lokanir veiðisvæða.

Veiðileyfi

Allar fiskveiðar í atvinnuskyni eru háðar leyfi frá Fiskistofu. Að jafnaði eru um 1300 skip og bátar með leyfi frá Fiskistofu til veiða í atvinnuskyni. Auk almennra veiðileyfa eru gefin út sérstök leyfi til tilekinna veiða, s.s. til veiða á grásleppu og til veiða með dragnót. Nánar um skilmála almennra veiðileyfa hér.

Úthlutun aflaheimilda (kvóta)

Fiskistofa úthlutar aflamarki (í tonnum) til veiða á kvótabundnum tegundum til eins fiskveiðiárs í senn á grundvelli aflahlutdeildar hlutaðeigandi skips og ákvörðunar ráðherra um leyfilegan heildarafla í einstökum tegundum á fiskveiðiárinu (1. sept. - 31. ág.). Með aflahlutdeild er átt við það hlutfall (í prósentum talið) af leyfilegum heildarafla í kvótabundinni tegund sem fiskiskip má veiða af leyfilegum heildarafla í tegundinni.

Aflamark flestra tegunda miðast við fiskveiðiárið en það er tímabilið frá 1. september til 31. ágúst ár hvert. Flestir nytjastofnar á Íslandsmiðum eru kvótabundnir (98% af heildaraflaverðmæti).

Flutningur aflaheimilda milli fiskiskipa

Aflaheimildir (aflahlutdeildir og aflamark) verða lögum samkvæmt alltaf að vera bundin við fiskiskip. Að tilteknum skilyrðum uppfylltum og með ákveðnum takmörkunum er heimilt að flytja aflaheimildir á milli fiskiskipa. Flutningur aflaheimilda öðlast ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur staðfest hann.

Lögum samkvæmt mega yfirráð einstakra eða tengdra aðila yfir aflahlutdeildum almennt og í tilteknum einstökum tegundum ekki fara yfir ákveðin mörk.

Sveigjanleiki í aflamarkskerfinu

Nokkur sveigjanleiki er innbyggður í aflamarkskerfið. Meginmarkmiðið með honum er að auðvelda útgerðarmönnum og sjómönnum að fara að settum reglum og stuðla að ábyrgri nýtingu fiskistofna. Í því sambandi má nefna að heimilt er að flytja allt að 15% af aflamarki flestra tegunda frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta og þá er heimilt að veiða allt að 5% umfram úthlutað aflamark skips á einstöku fiskveiðiári og dregst sá afli frá úthlutun á næsta ári.

Með tegundatilfærsla er átt við reglu sem heimilar að afli í einni tegund dragist að ákveðnu marki frá aflaheimildum skips í annarri tegund. Þessi heimild nær þó ekki til veiða á þorski.

Afli undir ákveðnum lengdarmörkum (“undirmálsafli”) tiltekinna tegunda, þorsks ýsu, ufsa og karfa dregst ekki að fullu frá aflamarki fiskiskips, enda sé honum haldið aðskildum frá öðrum afla um borð og vigtaður og skráður sérstaklega.

Allt að 5% umfram aflamark fiskiskips má, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, landa sem svokölluðum VS-afla og dregst sá afli ekki frá aflamarki hlutaðeigandi skips. Andvirði þessa afla rennur að stærstum hluta (80%) til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins en það sem eftir stendur gengur til útgerðar og áhafnar skipsins.

Heimilt er að stunda tómstundaveiðar til eigin neyslu. Við þær veiðar má eingöngu nýta handfæri án sjálfvirknibúnaðar. Óheimilt er að selja afla sem fæst við tómstundveiðar eða fénýta hann á annan hátt.

Aflamark - krókaaflamark

Aflamark er tvenns konar, þ.e. almennt aflamark, sem nýta má með veiðum með öllum leyfilegum veiðarfærum og krókaaflamark sem einungis er heimilt að nýta með krókaveiðarfærum (handfæri og línu). Bátar sem stunda veiðar á grundvelli krókaaflamarks eru nefndir krókabátar. Þeir þurfa að vera minni  en 15 brúttótonn og er þeim einungis heimilt að stunda veiðar með línu og/eða handfærum. Óheimilt er að flytja aflaheimildir úr krókaaflamarkskerfi í aflamarkskerfi. Liðlega 700 bátar hafa leyfi til veiða með krókaaflamarki.

Vigtun og skráning afla

Það er meginregla í íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu að allur afli skuli veginn í löndunarhöfn. Löggiltir vigtarmenn annast alla vigtun afla samkvæmt ítarlegum reglum sem gilda um vigtun og skráningu sjávarafla. Fiskvinnslustöðvar og fiskmarkaðir geta, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, fengið leyfi til þess að endurvigta ísaðan fisk.

Hafnaryfirvöld skrá, strax að löndun lokinni, niðurstöður hverrar vigtunar í gagnagrunni Fiskistofu og Löndunarhafna (GAFL). Þannig hefur Fiskistofa alltaf nýjar upplýsingar um landanir afla og aflaheimildastöðu einstakra fiskiskipa og fiskiskipaflotans í heild. Þessar upplýsingar eru birtar jafnóðum á vef Fiskistofu.

Það er mjög mikilvæg meginregla íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu að allan afla, sem kemur í veiðarfæri á að koma með að landi og láta vigta í löndunarhöfn. Brottkast afla er óheimilt og skal veiðum hagað þannig að þess sé gætt að afli skemmist ekki í veiðarfærum.

Við aflaskráningu á afurðum fullvinnsluskipa er aflinn reiknaður til aflamarks samkvæmt einstaklingsbundnum nýtingarstuðlum. Nýtingarstuðlar byggja á mælingum sem teknar eru um borð í fullvinnsluskipum samkvæmt ákveðnum reglum og aðferðum og með reglubundnu millibili. Fiskistofa gerir reglulega úttekt á nýtingarstuðlum einstakra skipa.

Lokanir veiðisvæða og veiðarfæri

Ef hlutfall smáfisks í afla mælist yfir ákveðnum mörkum er heimilt að loka veiðisvæði. Lokanir geta verið til skamms tíma (skyndilokanir) eða til lengri tíma (reglugerðalokanir).

Sérstakar reglur gilda um útbúnað veiðifæra, s.s. hvað varðar möskvastærð og smáfiskaskiljur og er þeim fyrst og fremst ætlað að koma í veg fyrir veiðar á smáfiski eða aðrar skaðlegar veiðar.

Eftirlit

Veiðieftirlitsmenn Fiskistofu sinna eftirliti til lands og sjávar og halda uppi lögum og reglu er varða fiskveiðar, afla og aflaheimildir og veita útgerðarmönnum, sjómönnum og forsvarmönnum fiskvinnslustöðva leiðbeiningar um það regluverk og túlkun þess. Nákvæmlega er fylgst með því hversu mikið hvert skip veiðir og aflasamsetningu þess og grípur Fiskistofa til aðgerða ef tilefni er til.

Þá er ýmiss konar rafrænt eftirlit framkvæmt á vegum Fiskistofu og má sem dæmi þar um nefna samanburð á upplýsingum um afla sem landað er á hafnarvog og upplýsingum afla samkvæmt skýrslum fiskkaupenda.

Viðurlög

Brot gegn fiskveiðiregluverkinu varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Stórfelld ásetningsbrot geta varðað fangelsi allt að 6 árum. Þá hefur Fiskistofa lagaheimildir til að beita stjórnsýsluviðurlögum, s.s. sviptingu veiðileyfis og afturköllun vigtunarleyfis vegna tiltekinna brota.

Veiði skip umfram aflaheimildir sínar gefur Fiskistofa hlutaðeigandi útgerð kost á að lagfæra aflaheimildastöðu skipsins með því að flytja til þess nægilegt aflamark innan tiltekins tíma. Sé það ekki gert er skipið svipt veiðileyfi þar til aflaheimildastaða þess hefur verið lagfærð. Hafi aflaheimildastaða skips ekki verið lagfærð fyrir lok fiskveiðiárs leggur Fiskistofa gjald sem nemur andvirði hins ólögmæta afla á hlutaðeigandi útgerð.

 


Tungumál síðu
banner5
Þetta vefsvæði byggir á Eplica