Fréttir

Markvisst og hagkvæmt eftirlit með vinnsluskipum

17.5.2018

Þann 12. maí sl. ritaði framkvæmdastjóri SFS grein í Morgunblaðið þar sem umfjöllunarefnið var kostnaður vegna veiðieftirlitsmanna um borð í vinnsluskipum. Hlutverk Fiskistofu er að gæta hagsmuna þjóðarinnar við sjálfbæra og ábyrga nýtingu auðlinda hafs og vatna. Veiðieftirlitsmenn gegna þar mikilvægu hlutverki. Heimild til að innheimta raunkostnað vegna eftirlits er skýrt afmörkuð og vegna eftirlits á sjó einskorðast slík heimild við skip sem vinna afla um borð og þau tilvik þar sem sérstakt tilefni er talið vera til að fylgjast sérstaklega með veiðum, aðallega vegna gruns um brottkast.

Ein af grunnstoðum fiskveiðistjórnunarkerfisins er rétt vigtun og skráning afla. Skip sem vinna afla úti á sjó njóta þeirra sérstöku réttinda að afurðir eru vigtaðar við löndun og eru afurðirnar síðan uppreiknaðar til afla upp úr sjó og til kvóta á grundvelli nýtingarupplýsinga og mælinga um borð sem starfsmenn Fiskistofu hafa eftirlit með. Réttar mælingar og skráning nýtingar um borð í vinnsluskipum er meginatriði við rétta skráningu á afla þeirra skipa. Ætla má að flestir séu sammála um að nýting útgerða  á sjávarauðlindum þjóðarinnar liggi sem skýrast fyrir og því er sérstakt eftirlit með vinnsluskipum gríðarlega mikilvægt.

Útgerðum er gert að greiða raunkostnað vegna sértaks eftirlits með vinnsluskipum á grundvelli lagaheimildar frá 2016. Fyrir þann tíma var gjaldið sem útgerðir greiddu fyrir eftirlitið mun lægra og var langt frá því að standa undir raunkostnaði. Það gerði það að verkum að sá hluti kostnaðar sem ekki fékkst innheimtur var tekinn frá öðrum verkefnum Fiskistofu sem voru þá vanfjármögnuð sem því nam. Í dag greiða þær útgerðir sem njóta þeirra sérréttinda að byggja kvótanýtingu sína á nýtingarmælingum, raunkostnað af því eftirliti sem stjórnvöld hafa með þeim. Rétt er að halda því til haga að eftirlitsmenn vinnsluskipa fara, með fáum undartekningum, að jafnaði í eina veiðiferð af hverjum tíu með hverju vinnsluskipi. Fiskistofa hefur á að skipa veiðieftirlitsmönnum sem hafa sérhæfða þekkingu á vinnslu um borð auk annarrar menntunar sem við á, t.d. skipstjórnarmenntun.

Framkvæmdastjóri SFS lætur það ósagt að heimild til að innheimta raunkostnað vegna eftirlitsmanns um borð takmarkast við mjög lítinn hluta flotans og er til komið af framangreindum ástæðum. Einnig er það látið ósagt að veiðieftirlitsmenn Fiskistofu annast, samhliða eftirlitsstörfum sínum, mikilvæga gagnaöflun fyrir Hafrannsóknastofnun sem nýtist við rannsóknir og mat á ástandi fiskistofna. Það er gert í þágu þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar, en ekki síður í þágu útgerðanna sjálfra. Og þá má heldur ekki gleyma því að skip sem vinna afla um borð stunda matvælaframleiðsu og eftirlitsmenn Fiskistofu annast sérstakt eftirlit með búnaði, vinnsluaðferðum og hreinlæti fyrir Matvælastofnun og skila reglulega skýrslum til Matvælastofnunar um niðurstöður skoðana um borð, benda á atriði sem bæta þarf úr og fylgja úrbótakröfum eftir. Veiðieftirlitsmenn Fiskistofu, erindrekarnir sem framkvæmdastjóri SFS kýs svo að kalla, eru því að sinna mjög fjölbreyttum verkefnum fyrir a.m.k. þrjár stofnanir og ekki verður annað sagt en að stjórnvöld hafi með þeim hætti náð umtalsverðri hagræðingu útgerðunum til hagsbóta. 

    Eyþór Björnsson, fiskistofustjóri

Til baka Senda grein

Finna skip

Tungumál síðu
banner6
Þetta vefsvæði byggir á Eplica