Fréttir

Regnbogasilungur veiðist nú í ám á Vestfjörðum

13.9.2016

Fiskistofa fékk ábendingu um það að eldisfiskur hefði veiðst í Mjólká í Arnarfirði í síðustu viku. Fiskistofa sendi eftirlitsmann á vettvang til að kanna hvort þessar ábendingar reyndust réttar. Tveggja daga eftirlitsferð staðfesti að regnbogasilung er nú að finna í ám í Patreksfirði, Tálknafirði, Arnarfirði og Dýrafirði. Regnbogasilungur er ekki náttúrulegur í íslenskum ám eða vötnum, en hann er notaður í fiskeldi hér á landi, m.a. í sjókvíum á Vestfjörðum. Fiskistofa rannsakar nú hvort regnbogasilung sé einnig að finna í Ísafjarðardjúpi, en grunur er um að svo geti verið. Fiskar sem veiddust í umræddri ferð eftirlitsmanns Fiskistofu eru nú til rannsóknar á Hafrannsóknastofnun.

Fiskistofa hefur ekki fengið tilkynningu um að slysaslepping hafi orðið í fiskeldi á Vestfjörðum, en rekstraraðilum í fiskeldi er skylt að tilkynna um slys í samræmi við 13. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Fiskistofa upplýsti Matvælastofnun um það að regnbogasilung væri nú að finna í ám á Vestfjörðum og er málið nú í rannsókn.

Til baka Senda grein

Finna skip

Tungumál síðu
banner2
Þetta vefsvæði byggir á Eplica