Fréttir

Nýtt fiskveiðiár 1. september

28.8.2020

Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2020/2021. Úthlutunin fer fram á grundvelli aflahlutdeilda að teknu tilliti til 5,3% frádráttar fyrir jöfnunaraðgerðir með sama hætti og undanfarin ár. Tekið skal fram að  enn eru fáein skip ófrágengin og getur því úthlutun til skipa enn breyst lítillega.

  • Að þessu sinni er úthlutað 359 þúsund tonnum í þorskígildum talið samanborið við um 372 þúsund þorskígildistonn í fyrra.
  • Úthlutun í þorski er um 202 þúsund tonn og dregst saman um 13 þúsund tonn frá fyrra ári.
  • Ýsukvótinn eykst um 3 þúsund tonn og fer í  rúm 35 þúsund tonn. 

Vakin er athygli á að síðar á árinu verður úthlutað aflamarki í deilistofnum og ekki er óalgengt að aukið sé við aflamark í uppsjávarfiski. Benda má sérstaklega á að engri loðnu var úthlutað að þessu sinni. Ætla má að heildaraflamark einstakra skipa og hafna og innbyrðishlutfall þeirra breytist í kjölfar frekari úthlutana þegar líður á fiskveiðiárið.


Skip með mestu úthlutunina

Nú er það Guðmundur í Nesi sem slær út Sólbergið sem það skip sem fær mestu aflamarki úthlutað.  Guðmundur í Nesi fær 14.065 þorskígildistonnum úthlutað en Sólber fær úthlutað 11.005 þorskígildistonnum - það er um 300 tonnum meira en í fyrra en dugar ekki til þegar  Guðmundur í Nesi bætti við sig um 3.000 tonnum. Þessi tvö skip skera sig úr frá öðrum skipum að þessu leyti. 

Heildarlistinn er hér


Úthlutun eftir fyrirtækjum

  • Fimmtíu stærstu fyrirtækin fá úthlutað sem nemur um 90,04% af því aflamarki sem úthlutað er og hækkar það hlutfall lítillega frá í fyrra.
  • Alls fá 326 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað nú eða 10 færri en í fyrra.
  • Sé litið til þeirra sem eru með mesta úthlutun fær Brim (áður HB Grandi) mestu úthlutað til sinna skipa eða 9,4% af heildinni, næst kemur Samherji með 6,88% og þá FISK Seafood með 6,32% og  Þorbjörn hf. með 5,49%.

Úthlutun eftir útgerðarflokkum

  • Bátar með krókaaflamark eru nú 245 og fækkar um 20.
  • Skipum í aflamarkskerfinu fækkar um 25 á milli ára og eru nú 176.
  • Bátar undir 15 m og 30 btn. fá úthlutað rúmlega 50,5 þúsund þorskígildistonnum
  • Bátar 15 m, 30 btn. og stærra fá úthlutað 368,7 þúsund þorskígildistonnum


Skel- og rækjubætur

Alls 1.852 þorskígildistonnum er úthlutað nú í upphafi árs sem skel- og rækjubótum en það er um heldur minna en í fyrra og fara þau til 50 báta en þeir voru 51 á fyrra ári.

Hér má sjá heildarskrá yfir úthlutun aflamarks til einstakra skipa, rækju- og skelbætur ársins og yfirlitsskjal þar sem hægt er að skoða úthlutunina út frá margvíslegum sjónarhornum.

Til baka Senda grein

Finna skip

Tungumál síðu
banner4
Þetta vefsvæði byggir á Eplica