Fréttir

Úthlutun aflamarks 2018/2019

31.8.2018

Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2018/2019. Úthlutunin fer fram á grundvelli aflahlutdeilda að teknu tilliti til 5,3% frádráttar fyrir jöfnunaraðgerðir með sama hætti og á fyrra fiskveiðiári. Að þessu sinni er úthlutað 390 þúsund tonnum í þorskígildum talið samanborið við um 375þorskígildistonn í fyrra, reiknað í þorskígildum fiskveiðiársins sem nú gengur í garð. Aukning á milli ára samsvarar því um 15 þúsund þorskígildistonnum. Úthlutun í þorski er rúm 208 þúsund tonn og hækkar um 5 þúsund tonn frá fyrra ári. Ýsukvótinn er rúm 45 þúsund tonn og hækkar um 14 þúsund tonn.  Aukningin í  ufsakvótanum er 15 þúsund tonn. Tæplega 6 þúsund tonna samdráttur er úthlutun á gullkarfa en um 1.200 tonna aukning í djúpkarfa. Úthlutun í íslenskri sumargotssíld er um 2.000 tonnum meiri en í fyrra. Þá má geta þess að nú er hlýra úthlutað í fyrsta sinn en leyfilegur heildarafli í honum er 1.001 tonn upp úr sjó. Úthlutað aflamark er alls um 451 þúsund tonn sem er um 28 þúsund tonnum meira en á fyrra ári.

Vakin er athygli á að síðar á árinu verður úthlutað aflamarki í deilistofnum og ekki er óalgengt að aukið sé við aflamark í uppsjávarfiski. Benda má sérstaklega á að engri loðnu var úthlutað að þessu sinni. Þess vegna á heildaraflamark einstakra skipa og hafna og innbyrðishlutfall þeirra eftir að breytast í kjölfar slíkra úthlutana þegar líður á fiskveiðiárið.

Alls fá 540 skip úthlutað aflamarki að þessu sinni samanborið við 489 á fyrra fiskveiðiári. Skýringin á þessari miklu fjölgun liggur í því að fjöldi skipa hefur veiðireynslu í hlýra því hann veiðist víða í litlu magni sem meðafli. Fyrir vikið eru fjölmörg skip sem ekki hafa búið yfir neinum hlutdeildum nú komin með hlutdeild í hlýra og fá því úthlutað aflamarki í honum. Það skip sem fær úthlutað mestu aflamarki er Sólberg ÓF 1, en það fær 10.760 þorskígildistonn eða 2,7% af úthlutuðum þorskígildum.

Úthlutun eftir fyrirtækjum

Fimmtíu stærstu fyrirtækin fá úthlutað sem nemur um 88,5% af því aflamarki sem úthlutað er og er það svipað hlutfall og í fyrra. Alls fá 416 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað nú eða 44 fleiri aðilar en í fyrra. Sé litið til þeirra sem eru með mesta úthlutun fær HB Grandi, líkt og í fyrra, mestu úthlutað til sinna skipa eða 9,4% af heildinni, næst kemur Samherji með 6,5% og þá FISK Seafood og  Þorbjörn hf. með 5,5%.

Úthlutun eftir heimahöfnum

Þrjár heimahafnir skera sig úr eins og undanfarin ár með að skip sem þeim tilheyra fá töluvert mikið meira úthlutað í þorskígildum talið en þær hafnir sem á eftir koma. Mest fer til skipa með heimahöfn í Reykjavík eða 11,6% af heildinni samanborið við 12,3% í fyrra. Næstmest fer nú til Grindavíkur, eða 11,0% af heildinni samanborið við 10,8% á fyrra ári. Skip með heimahöfn í Vestmannaeyjum ráða fyrir 10,6% úthlutunarinnar samanborið við 9,9% í fyrra.

Hlutfall sem fer til skipa hjá hverri höfn fyrir sig breytist í flestum tilvikum eitthvað og má rekja það til breytinga á þorskígildisstuðlum sem og tilfærslu aflahlutdeilda á milli skipa með ólíka heimahöfn. Vísað er til yfirlitstöflunnar sem tengill er í hér að neðan.

Úthlutun eftir útgerðarflokkum

Bátar með krókaaflamark eru nú 316 og fjölgar um 39, einkum vegna úthlutunar á hlýra. Skipum í aflamarkskerfinu fjölgar um 12 á milli ára og eru nú 224. Athygli vekur að togurum fjölgar um  þrjá eftir árvissa fækkun undanfarið en þeir eru engu að síður 14 færri en við upphaf fiskveiðiársins 2013/2014. Togararnir eru nú 42 í íslenska flotanum. Samkvæmt útgerðarflokkun Fiskistofu fá skuttogarar úthlutað tæpum 225 þúsund tonnum af því heildaraflamarki sem úthlutað var að þessu sinni og skip með aflamark fá tæp 171 þúsund tonn. Smábátar með aflamark og krókaaflamarksbátar fá rúm 55.200 tonn. Vakin er athygli á því að til krókaaflamarks telst eingöngu úthlutun á þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa, löngu, blálöngu, keilu, steinbít, hlýra og litla karfa.

Skel- og rækjubætur

Alls 1.990 þorskígildistonnum er úthlutað nú í upphafi árs sem skel- og rækjubótum en það er um 50 tonnum minna en í fyrra og fara þau til 54 báta samanborið við 40 báta á fyrra ári.

Hér má sjá heildarskrá yfir úthlutun aflamarks til einstakra skipa, rækju- og skelbætur ársins og yfirlitsskjal þar sem hægt er að skoða úthlutunina út frá margvíslegum sjónarhornum.

 

Til baka Senda grein

Finna skip

Tungumál síðu
banner2
Þetta vefsvæði byggir á Eplica