Erindisbréf eftirlitsmanna

Erindisbréf fyrir eftirlitsmenn Fiskistofu

1. gr.

            Erindisbréf þetta tekur til eftirlitsmanna Fiskistofu, sem ráðnir eru til þess að fylgjast með veiðum, í íslensku fiskveiðilögsögunni, veiðum íslenskra skipa utan lögsögu Íslands, veiðum í ám og vötnum og fiskeldi.

            Jafnframt tekur erindisbréfið til eftirlits með veiðarfærum og búnaði skipa, vinnslu afla um borð í skipum og meðferð afla eftir atvikum.

            Erindisbréfið tekur einnig til eftirlitsstarfa í landi, s.s. með löndun, vigtun og skráningu afla og meðferð hans eftir atvikum, eldi sjávar- og vatnafiska og skeldýra, vinnslu afla og útflutningi afla og afurða.

2. gr.

            Eftirlitsmenn hafa skyldur og njóta réttinda, sem opinberir starfsmenn. Um laun þeirra fer eftir ákvæðum kjarasamninga ríkisstarfsmanna.

            Fiskistofa ákveður vinnutilhögun eftirlitsmanna með hliðsjón af gildandi kjarasamningum.

            Eftirlitsmönnum er skylt að rækja af alúð og kostgæfni skyldur þær, sem á þeim hvíla í starfi þeirra. Eftirlitsmenn skulu kynna sér og fara eftir siðareglum sem Fiskistofu hefur sett.

            Eftirlitsmönnum er óheimilt að stunda nokkurn þann atvinnurekstur eða atvinnu sem lýtur að fiskveiðum, fiskverkun, fiskverslun eða rekstur báta til frístundaveiða.

            Eftirlitsmönnum er bannað, að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi mönnum frá nokkru því sem leynt á að fara og þeir hafa fengi vitneskju um í starfi sínu.

3. gr.

            Eftirlitsmenn lúta yfirstjórn fiskistofustjóra, en forstöðumaður fiskveiðistjórnunarsviðs stýrir eftirlitinu. Deildar- og svæðisstjórar sjá um daglega stjórn eftirlitsmanna að svo miklu leyti sem hún er ekki ákveðin í erindisbréfi þessu eða settum reglum og leiðbeiningum um verkefni og verklag eftirlitsmanna.

4. gr.

            Eftirlitsmenn skulu kynna sér rækilega lög og reglugerðir, sem gilda um málaflokka og viðfangsefni sem eru á verksviði þeirra svo og aðrar reglur, fyrirmæli og leiðbeiningar sem þýðingu geta haft í því sambandi, s.s. ákvæði leyfisbréfa, sem Fiskistofa gefur út og verklagsreglur sem settar hafa verið af yfirstjórn Fiskistofu. Eftirlitsmenn skulu einnig kynna sér tilrauna- og rannsóknaleyfi útgefin af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þeim er skylt að haga störfum sínum í samræmi við ákvæði slíkra reglna og fyrirmæla, ákvarðanir yfirmanna eftirlitsins og skriflegar vinnulýsingar sem til eru á hverjum tíma.

5. gr.

            Skipstjórum fiskiskipa er skylt að taka eftirlitsmenn með í veiðiferð sé þess óskað. Einnig er skipstjórum skylt að veita eftirlitsmönnun alla þá starfsaðstöðu og aðstoð sem þeim er nauðsynleg í starfi sínu, m.a. greiðan aðgang að fjarskipta- og staðsetningartækjum.

            Eftirlitsmaður skal hafa sérhvílu til afnota þegar hann er við eftirlitsstörf um borð í fiskiskipi. Það gildir þó ekki um dagróðrabáta.

6. gr.

            Eftirlitsmenn Fiskistofu skulu fylgjast með veiðum á nytjastofnum sjávar og veiðarfærum í því skyni að koma í veg fyrir skaðlegar veiðar og hafa eftirlit með að þeim reglum sé fylgt sem um veiðarnar gilda.

            Hvenær sem eftirlitsmenn Fiskistofu telja að veiðar skipa geti talist skaðlegar nytjastofnum, m.a. vegna mikils magns af smáfiski í afla, skulu þeir þegar tilkynna Hafrann-sóknastofnuninni, eða þeim aðila, sem forstjóri stofnunarinnar hefur tilnefnt í þessu skyni.

            Sé tilefni til að banna veiðar af fyrrnefndum ástæðum skulu eftirlitsmenn gera tillögur um stærð svæðis eða svæða sem banna þarf veiðar á.

7. gr.

            Eftirlitsmenn Fiskistofu skulu fylgjast með veiðum ferskvatnsfiska með það að markmiði að koma í veg fyrir ólöglegar laxveiðar í sjó og að fylgjast með að farið sé að friðunarákvæðum við veiðar á göngusilung í sjó. Þá skulu eftirlitsmenn fylgjast með að farið sé að reglum um malartekju í eða við veiðivötn og grípa til viðeigandi aðgerða ef tilefni er til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum og reglum.

8. gr.

            Eftirlitsmenn Fiskistofu skulu fylgjast með hvalveiðum til að tryggja að farið sé að reglum um veiðarnar og skilyrðum sem þær og leyfi til veiðanna eru bundin.

9. gr.

            Verði eftirlitsmenn þess varir að ástæða sé til að ætla að brotið hafi verið gegn reglum varðandi  fiskveiðar í sjó, hvalveiðar,  lax og silungsveiðar eða fiskeldi skulu þeir gera skýrslu, þar sem meintu broti er lýst eins nákvæmlega og unnt er og skal skýrslunni skilað til yfirmanns eins skjótt og kostur er.

10. gr.

            Eftirlitsmenn skulu eftir því sem við verður komið og í samráði við Hafrannsóknastofnunina annast almenna sýnatöku á afla, skrá kyn hans, lengd, kynþroska o.s.frv. Einnig skulu þeir gera aðrar þær athuganir fyrir Hafrannsóknastofnunina sem við verður komið, enda liggi fyrir samþykki yfirmanna þeirra.

11. gr.

            Eftirlitsmenn skulu fylgjast með að afli sé veginn af löggiltum vigtarmönnum á löggiltum vogum eins og lög og reglur mæla fyrir um, að tegundum sé haldið aðgreindum og að landað magn hverrar tegundar sé rétt tilgreint við skráningu í gagnagrunn Fiskistofu og löndunarhafna (Gafl).

            Jafnframt skulu eftirlitsmenn, eftir nánari fyrirmælum yfirmanna og settum verklagsreglum, safna upplýsingum um hreinlæti, hollustuhætti og innra eftirlit vinnsluleyfishafa.

12. gr.

            Að lokinni hverri eftirlitsferð skulu eftirlitsmenn gefa yfirmanni skýrslu um ferðina. Sérstaka skýrslu skal gefa um meint brot.

            Ennfremur skulu eftirlitsmenn halda dagbók (gagnasafn) í því formi sem yfirmenn ákveða. Í dagbók skal tekið fram í hvaða skipum og/eða verstöðvum eftirlit fór fram og hvenær og í hverju eftirlitið fólst. Skila skal dagbók samkvæmt fyrirmælum yfirmanns.

13. gr.

            Eftirlitsmenn skulu leita álits og úrskurðar yfirmanns um atriði sem þeir eru í vafa um.

14. gr.

            Erindisbréf þetta er gefið út samkvæmt lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar með síðari breytingum, lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands með síðari breytingum, lögum nr. 151/1996, um veiðar utan lögsögu Íslands með síðari breytingum, lögum nr. 61/2006, um lax og silungsveiði með síðari breytingum, lögum nr. 26/1949, um hvalveiðar, með síðari breytingum og lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, til að öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi erindisbréf nr. 87/1995, fyrir eftirlitsmenn Fiskistofu.

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið 9. nóvember 2010.
Finna skip

Tungumál síðu
banner1
Þetta vefsvæði byggir á Eplica